137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að fyrirvararnir væru tær snilld og ég er viss um að frá sjónarhóli hennar og hv. þingmanns Þórs Saaris og margra annarra eru þeir það. Ég hugsa sömuleiðis, eins og hv. þingmaður segir, að þeir muni ekki renna svo ljúflega niður hjá þeim aðilum máls sem hv. þingmaður nefndi. Það ímynda ég mér. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ferli í þinginu hafi verið mjög lýðræðislegt og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin vildi í upphafi að þetta mál færi fram með öðrum hætti. Ég dreg enga dul á það. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin réð ekki við það. En lýðræðið gildir og í þessum sölum hefur lýðræðið unnið þetta mál með þeim hætti að hv. þingmaður, sem hefur mjög ákveðinn og skýran málstað, segir að fyrirvararnir séu tær snilld.

Alþingi er fullvalda. Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar og það ræður fyrir Íslendingum. Því velti ég fyrir mér, af því að hv. þingmaður orðaði það svo að ganga yrði úr skugga um að fyrirvararnir héldu, hvort þeir fyrirvarar sem Alþingi setur með meiri hluta á þingi hljóti ekki að halda því það er Alþingi sem tekur ákvarðanir um þetta mál fyrir hönd Íslendinga og enginn annar getur það. Ef þessir fyrirvarar eru þannig að þeir takmarka með einhverjum hætti ábyrgð íslenska ríkisins þá hlýtur niðurstaða íslenska þingsins um það að gilda.

Ég tel sjálfur að það þurfi engan sérstakan aðila til að skera úr um það. Það er þingið sem ræður og ég tek orð hv. þingmanns fullgild þegar hún segir að frá hennar sjónarhóli og miðað við hennar málstað séu fyrirvararnir tær snilld. Ef svo er þarf ég engan til að segja það, ég treysti orðum hv. þingmanns í því efni og Alþingi.