137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er tekið fyrir í fyrirvörunum og ég hygg að það hafi komið upp í umræðunni varðandi fyrirvarana og hversu mikið gildi þeir hafa og hvernig sé tekið á því. Ég hygg að þetta sé eitt af því sem verði tekið til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég mun ekki styðja þessar breytingartillögur sé ekki girt fyrir það að umræddir fyrirvarar séu raunverulega til staðar. (Gripið fram í.) Ég mun ekki gera það. Ég vil benda á að ég hef verið í sambandi við til að mynda Indefence-menn í dag sem hafa bent á möguleika til að gera smávægilegar breytingar svo þessir fyrirvarar geti orðið virkir, séu þeir það ekki í dag. Þetta er eitt af því sem þarf að leggjast yfir.

Það þarf líka að setjast yfir það hvort hægt sé að gera þetta þegar samningurinn verður gerður við tryggingarsjóðinn. Það er líka mögulegt að gera það þá því það er tryggingarsjóðurinn sem semur við Breta og Hollendinga. Það er tryggingarsjóðurinn sem tekur lánið þannig að hægt er að setja skilyrðin þar á milli og síðan verða Hollendingar og Bretar að fallast á það. Það er alveg hárrétt.