137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að vísu að gera athugasemd við eitt. Mér finnst ekki rétt að menn tali alltaf um að samninganefndin sé eitthvert sjálfstætt fyrirbæri sem hafi gert þennan samning. Samninganefndin hefur ekki gert neitt nema forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi gefið leyfi til að það sé gert. Það er útilokað að samninganefndin hafi tekið þetta upp hjá sjálfri sér. Samninganefndin fær ákveðið upplegg frá ríkisstjórninni og gengur frá samningi á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Að vísu er svolítið sérkennilegt í þessu máli öllu saman að ríkisstjórnin hefur eflaust aldrei samþykkt þetta, alla vega ekki allir ráðherrarnir. Það eitt og sér gerir það að verkum að menn ættu að spyrja spurninga um verkstjórn í þessari ríkisstjórn, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég vildi spyrja út í praktískt atriði vegna þess að við höfum verið að ræða um fyrirvarana og hvort þeir standist. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur velt því upp m.a. í umræðunni hvort það sé skynsamlegt að fá erlendan ráðgjafa en síðan hefur líka Indefence-hópurinn komið með hugmynd um breytingu sem geri það að verkum að ríkisábyrgðin taki ekki gildi nema Hollendingar og Bretar samþykki fyrirvarana þannig að þeir hafi enga stöðu til að sækja málið þar sem þeir séu búnir að samþykkja fyrirvarana. Ég vildi bara spyrja hv. þingmann hvort hann teldi ekki að þetta væri nægilegt til að gulltryggja það að fyrirvararnir stæðu.