137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, stjórnarandstaðan þarf að vinna vel saman í máli sem þessu en í raun má segja, svo að allir fái sinn skerf af þessari köku, að þingmenn allra flokka hafa komið að málinu á einhverjum stigum og má segja að þingræðið hafi haft einhver raunveruleg áhrif. Vonandi er það eitthvað sem koma skal. En þegar hv. þingmaður talar um þingmeirihluta í sumum málum held ég að það hafi sýnt sig á undangengnum vikum að svo er ekki. Sá meiri hluti er ansi brothættur í þeim efnum sem kannski segir okkur að þessir tveir flokkar, Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, eiga mjög erfitt með að takast á við erfiða stöðu mála í dag. Í raun er það alveg fáránlegt, í ljósi þess efnahagshruns sem blasir við okkur öllum, að tveir flokkar með mjög nauman meiri hluta skuli ætla að stýra landinu í heild sinni. Ég held að það hafi sannað sig á undangengnum vikum og mánuðum að þessir tveir flokkar valda einfaldlega ekki því verkefni. Það þarf fleiri að þessu borði og ég held að allur almenningur sé sammála um að það þurfi einhverjar breytingar. Breytinga er þörf á landsstjórninni. Við höfum orðið vör við það á undangengnum vikum og mánuðum að allan neista, allt líf vantar í forustu ríkisstjórnarinnar því miður. Það vantar öflugan leiðtoga, einhverja stjórnmálamenn sem þora raunverulega.

Mig langar í lokin að minna á að í febrúarmánuði lögðum við framsóknarmenn fram tillögur í efnahagsmálum — við höfum ekki náð einni einustu þeirra fram — sem m.a. kváðu á um að leiðrétta almennt skuldir heimila og fyrirtækja. Hvað eru menn að ræða um í dag, 7–8 mánuðum síðar? (Gripið fram í.) Nú á loksins að ráðast í einhverjar leiðréttingar en það gæti verið of seint og kannski væri staðan allt önnur í dag ef Framsóknarflokkurinn hefði haft einhver völd í tíð síðustu ríkisstjórnar til að hafa áhrif á framvindu mála. (Gripið fram í.)