137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðu hans. Hún er í mörgu samhljóma þeim ræðum sem hafa verið haldnar í dag frá okkur stjórnarandstæðingum sem erum uppfullir af ótta og tortryggni gagnvart þessum samningum.

Þingmaðurinn kom inn á fyrirvarana sem er búið að gera við samninginn. Með mikilli aðstoð og orku frá stjórnarandstöðunni er búið að koma þeim í það horf sem þeir eru nú. Sérstaklega er ég hrifin af því að friðhelgisréttindin og umráðin yfir auðlindunum skuli vera komin inn í fyrirvarana því ef maður gagnályktar er verið með því að viðurkenna að þau ákvæði eru ekki inni í samningnum sjálfum. Það er alveg sama hversu góðir fyrirvararnir verða og hversu mikið er búið að draga þingmenn í þessari vinnu því eins og ég benti á snemma í gær er ekki hægt að breyta samningunum. Ríkisstjórnarflokkarnir fullyrða að fyrirvararnir rúmist innan samninganna. Sjálfstæðismenn telja svo ekki vera og telja að um nýtt samningsumboð sé að ræða. Ég vitna aftur í grein 13.1.1 í breska samningnum og 12.1 í hollenska samningnum þar sem stendur að ekki megi gera breytingar á samningnum nema með skriflegu samkomulagi milli aðila.

Í grein 6 í samningunum, um ábyrgð og skaðleysi, er tekinn af allur vafi um að ekki er hægt að gera neinar efnahagslega fyrirvara heldur. Því spyr ég þingmanninn: Hvaða leið sér hann út úr þessu þegar það er orðið ljóst að fyrirvararnir rúmast ekki innan samninganna eins og kemur fram í þessu frumvarpi?