137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í lagalegar þrætur við hv. þingmann um þetta mál. Það er algerlega skýrt í mínum huga og ég tel að það sé skýrt í huga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þessir fyrirvarar eru órjúfanlegur hluti samningsins. Þannig lítum við á málið. Leiki einhver vafi á því þá er það eins og ég sagði áðan verkefni fjárlaganefndar að girða svo í horn milli 2. og 3. umr. að slík mál séu skýr, slíkir hlutir séu algerlega skýrir.

Ég sagði áðan í ræðu minni að ég mundi ekki styðja tillögu framsóknarmanna og ég geri það einfaldlega ekki vegna þess að ég tel að hún gangi skemur en þeir fyrirvarar sem við höfum sett. Ég sé lítinn tilgang í því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar aftur án þess að gefa einhverjar leiðbeiningar um það og skýran vilja um það á hvaða forsendum skuli samið. Í tillögum framsóknarmanna kemur það ekki fram. Það er einfaldlega verið að vísa málinu frá. Ég tel að með þeirri vinnu sem hefur verið lögð í þetta mál og að þeir fyrirvarar sem liggja fyrir gangi lengra og í þeim kristallist skýr vilji meiri hluta þingsins um það á hvaða forsendum þessir samningar skuli vera og þar með í mínum huga á hvaða forsendum hæstv. ríkisstjórn skal leiða samningaviðræður við viðsemjendur okkar. Þetta er eins og ég orðaði áðan gagntilboð til okkar viðsemjenda.