137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:21]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum á innstæðum á títtnefndum Icesave-reikningum hjá Landsbanka Íslands hf. Mig langar til að hefja mál mitt á að þakka nefndarfólki hv. fjárlaganefndar fyrir vel unnin og ábyrg störf í þessu erfiða máli. Breið samstaða hefur náðst um málið sem er afar mikilvægt. Starfsmenn nefndasviðs og þingsins alls eiga líka þúsund þakkir skildar. Ég geri ráð fyrir því að ég deili þeirri skoðun með 62 þingmönnum að vilja svo gjarnan vera laus við að veita þessa ríkisábyrgð og verja þeim miklu fjármunum sem í hana fara til allt annarra hluta.

Icesave-reikningarnir, ein ýktasta og skefjalausasta mynd græðgisvæðingarinnar, urðu til þegar fulltrúa hennar fór að vanta skiptimynt og fengu þá snilldarhugmynd að fara í vasa erlendra sparifjáreigenda, stofnana og sveitarfélaga með ótrúlegum gylliboðum. Þessum víkingum okkar tókst að telja einhverjum trú um að þessi útfærsla væri tær snilld og viðskiptahugmynd í fremstu röð og náðu þannig umtalsverðu fjármagni í umferð til að viðhalda því loftbóluhagkerfi sem sprakk síðan með háum hvelli sl. haust. Í þessum loftbólum var því miður ekki bara loft heldur dómínókerfi sem varð til þess að efnahagskerfi Íslands hrundi með tilheyrandi hremmingum fyrir ríki, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, heimili og einstaklinga. Ljóst er að margt brást í samfélaginu á þessum tíma, bæði eftirlitsaðilar og stjórnendur, og er minn flokkur þar ekki undanskilinn.

Mér finnst margt sem komið hefur fram í umræðunni í dag og í gær minna mig á hóp sem ég hef unnið mikið með, unglinga sem eiga svolítið erfitt með að sitja kyrrir, langar mest til að kljást og eru í stöðugri vörn og segja án afláts: Ekki benda á mig. Það má oft ná árangri með þá með því að búa til sameiginleg verkefni þar sem allir hafa hag af því að niðurstaðan skipti máli og það hefur í raun gerst í vinnu fjárlaganefndar á liðnum vikum. Mér finnst við þingmenn skulda umbjóðendum okkar að við vinnum saman að þeim mikilvægu verkefnum sem við erum að kljást við við uppbyggingu íslensks samfélags þannig að hún verði sem allra hröðust.

Ég hef engan þingmann heyrt segja að ekki beri að semja um Icesave-reikningana en skiptar skoðanir eru um hversu góðir þeir samningar séu sem liggja fyrir. Ég tel þá ekki sérstaklega góða eina og sér því margnefnd efnahagsleg viðmið koma þar ekki nógu skýrt fram og endurskoðunarákvæðið hálfveiklulegt. En með þeim fyrirvörum sem gerðir hafa verið við ríkisábyrgðina í góðri sátt flestra flokka í fjárlaganefnd er samningurinn orðinn mun betri efnahagslega, lagalega, siðferðilega og pólitískt.

Í umræðunni um þetta vonda en nauðsynlega úrlausnarefni hefur talsvert verið rætt um að nágrannar okkar hafi komið illa fram við okkur. Við hefðum svo gjarnan viljað fá meiri vinsemd og mýkri meðferð. Auðvitað er það skelfilegt að fá á sig hryðjuverkalög, að aftur og aftur sé lánafyrirgreiðslu nágranna okkar frestað, að stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dragi lappirnar gagnvart okkur. Auðvitað gera þessi viðbrögð okkur sár og örg. En við þingmenn, sem sjálfsgagnrýnið og þokkalega greint fólk, verðum auðvitað að viðurkenna að sum þessara viðbragða eru skiljanleg. Við njótum ekki lengur sérstaks trausts hjá nágrönnum okkar því landar okkar hafa víða komið illa og ótrúverðuglega fram og slegið um sig með hugtökum eins og innstæðutryggingar og ríkisábyrgð til að auglýsa sig og sínar hugmyndir. Það er skelfilega óréttlátt að fáeinir einstaklingar geti haft þau áhrif sem raun ber vitni á efnahagslíf heillar þjóðar en það er raunveruleikinn sem við búum við og hluti af úrlausnarefni okkar í dag og næstu daga, vikur og missiri að vinna íslenskri þjóð trúverðugleika á ný, ekki síst með því að ganga frá Icesave-samningunum og tryggja þeim sem á þá treystu hluta af sínum innstæðum. Þannig sýnum við ábyrgð sem þjóð meðal þjóða og getum staðið upprétt í því samfélagi því þótt við séum skuldug erum við búin að ganga frá okkar málum og getum barist fyrir rétti okkar og málefnum, laus við óvissu sem oft er fylgifiskur margra lausra enda. Í þeirri stöðu getum við farið að telja kjark í fólkið í landinu okkar, getum treyst því að við séum búin að byggja grunninn að endurreisninni svo ríki, sveitarfélög og fyrirtæki geti aflað sér lánsfjár til að geta farið í stór og smá verkefni svo atvinnulífið blómstri með tilheyrandi velferð fjölskyldna og einstaklinga.

Við getum haldið áfram blómlegu samstarfi við þjóðir heims því við höfum sýnt að við vinnum í því að vera trúverðug og orðheldin og viljum bæta fyrir þann skaða sem unninn hefur verið á orðstír Íslands. Þannig höldum við opnum leiðum til að okkar unga fólk og fólk á öllum aldri nái sér í menntun og reynslu erlendis til að auðga alþjóðlegt samfélag og til okkar komi fólk og fyrirtæki sem veiti okkur af sínum margbreytilega auði og vonandi endurheimtum við fólk sem flutt hefur úr landi vegna óvissuástandsins sem hér ríkir.

Það er ljóst að sultarólin verður hert á Íslandi næstu ár. Til að slaka heldur á þeirri herðingu er nauðsynlegt að vera í góðu samstarfi við aðrar þjóðir og fá þær til að koma að endurreisnarstarfinu með okkur með þekkingu sinni og fjármagni. Þess vegna verðum við að ganga frá deiluefnum okkar á eðlilegan hátt.

Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarpið eru til mikilla bóta, enda koma þar fram hugmyndir um forsendur, viðmið, endurskoðunarákvæði, eftirlit Alþingis og endurheimt innstæðu og eigna. Frumvarpið með breytingum er orðið ásættanlegt fyrir íslenska þjóð þótt óréttlætið sé jafnmikið og fyrr en með samþykkt þess erum við að eyða óvissu og taka enn eitt skref í endurreisnarátt. Ég vona því að sú breiða samstaða sem um málið náðist í fjárlaganefnd haldi fast í afgreiðslu þingsins og breikki jafnvel enn frekar. Það væru jákvæð skilaboð um trúverðugleika stjórnmálamanna til íslensku þjóðarinnar og til alþjóðasamfélagsins.