137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur yfirleitt ekki þurft að hafa neinn sérstakan talsmann fyrir sig. Hann er fullkomlega fær um að túlka eigin orð og legg ég til að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ræði þessi mál sérstaklega við hann. Ég geri frekar ráð fyrir því að þarna hafi kannski orðið einhver mismæli. Mér finnst afar ólíklegt að hæstv. utanríkisráðherra hafi gert ráð fyrir því eða hafi meint það að Alþingi réði yfir Íslandi heldur hugsanlega fyrir Íslandi með löggjafarvaldi sínu. Það er mín skoðun á þessu máli. Ég get í raun og veru ekki sagt neitt annað og finnst óeðlilegt að við séum að túlka orð hæstv. ráðherra sem ekki er viðstaddur.

Varðandi það sem hv. þingmaður hefur innt marga hv. þingmenn eftir, um samkeppnislög eða hvernig samkeppnisstaða innstæðutryggingarsjóðs er, þá veit ég að það hefur verið rætt í fjárlaganefnd og geri ráð fyrir að málið hafi verið útkljáð þar og komi þar inn í nefndarálit og tel mig ekki hafa neinar forsendur til að ræða það frekar.