137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurninguna þá var málið tekið fyrir í ríkisstjórn og afgreitt þar en þar gerði ég grein fyrir því sjónarmiði mínu og afstöðu að ég veitti ekki heimild mína til að gengið yrði frá samningnum. Mín afstaða var alveg skýr í þessu máli og hefur alltaf verið.

Í annan stað er spurt um fyrirvarana og hvort ég telji að þeir haldi og hvernig við eigum að halda á málum í framhaldinu. Ég treysti mér ekki til að svara þessu af neinu viti á lagalegum forsendum en ég leyfi mér að standa hér sem þingmaður og Íslendingur á Alþingi Íslendinga og halda því fram að það sem hér er ákveðið fyrir hönd þjóðarinnar og snýr að lagalegum skuldbindingum í löggjafarsamkundunni sem jafnframt fer með fjárveitingavald fyrir þjóðina, fyrir þingið, fyrir ríkið þá hljóta ákvarðanir sem hér eru teknar að standa öllu ofar hvað okkur snertir. Það er mín persónulega skoðun. En hvað varðar lagaleg álitamál sem þessu tengjast þá treysti ég fjárlaganefnd til að fara í saumana á því og kveðja til þess færustu sérfræðinga.