137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ég og hæstv. heilbrigðisráðherra séum algerlega sammála í þessu máli. Staða okkar er reyndar nokkuð ólík. Hann er ráðherra í ríkisstjórninni og lýsti því í ræðu áðan hvernig atburðarásin hefði verið þar, sem gerir stöðu ráðherrans að vísu erfiðari en er þeim mun meiri áminning um hvers lags hugrekki var fólgið í afstöðu ráðherrans að láta ekki deigan síga.

Ég vona að það verði áfram upp á teningnum og mér heyrist reyndar á hæstv. ráðherra að sú verði raunin.

Áhyggjuefnið varðandi þennan samning er nefnilega það að þó að Alþingi Íslendinga eigi ávallt að hafa síðasta orðið þá er í honum getið sérstaklega um afsal ákveðinna réttinda. Spurningin er því enn þá til staðar hvort með staðfestingu samningsins sé búið að afsala sér þeim réttindum sem ég og hæstv. ráðherra erum sammála um að við eigum alltaf að halda eftir.