137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:57]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir spurninguna og athugasemdina. Ég er nýbyrjaður á þingi, fyrir mér er þetta skóli og ég er að læra mikið. Ég hef séð hér í þessu einstaka máli fyrirmyndarvinnubrögð viðhöfð. Það náðist að mynda hóp þingmanna sem var þverpólitískur til að vinna að þessum efnahagslegu fyrirvörum. Það sýndi mér eitthvað sem ég var alltaf sannfærður um að væri hægt að gera, að hægt væri að vinna málin á þennan hátt.

Þessi vinnubrögð hafa hins vegar farið ansi þversum í marga stjórnarliða og sumir í flokki t.d. Vinstri grænna hafa átalið samflokksmenn sína harkalega fyrir að taka þátt í þessu starfi með stjórnarandstöðunni. Samfylkingin hefur verið alveg þversum út af þessu máli og litið það mjög einkennilegum augum. En við skulum ekki gleyma því að Alþingi hefur náttúrlega starfað frá upphafi niðurnjörvað í flokkspólitísk hjólför sem löngu er orðið tímabært að ná því upp úr ef hægt er.

Það hefur tekist í fleiri málum á þessu þingi, það tókst í máli sem efnahags- og skattanefnd fjallaði um varðandi eignaumsýslufélagið, það náði að vinna það mál mjög faglega. Það hefur tekist að hluta með þetta mál og það er vel og hefur einfaldlega verið gaman að vinna í því þannig. Það sem ég hef lært og aðrir þingmenn hafa lært er að það er ekkert mjög hættulegt að teygja sig yfir borðið og taka í höndina á hinum og segja: Gerum þetta saman. Það getur verið að það gangi bara betur þannig.