137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég er fastafulltrúi í efnahags- og skattanefnd og það er einnig rétt hjá henni að ég kom að þeirri vinnu að búa til þessa efnahagslegu fyrirvara. Ég held að það sé vægt til orða tekið að ég hafi tengst því, varla búinn að gera annað síðasta hálfa mánuðinn kannski eða svo.

Hvað varðar vinnubrögðin í efnahags- og skattanefnd þá voru þau vítaverð. Málið var rifið út úr …

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur þingmanninn til að gæta orða sinna í ræðustól Alþingis.)

Virðulegi forseti. Hvað sagði ég sem kallar á þessi ummæli?

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður notar orðið „vítaverð“ og forseti áminnir þingmanninn í fullri vinsemd um að gæta orða sinna.)

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta orð sé síst ofmælt miðað við þá málsmeðferð sem málið fékk.

(Forseti (ÁI): Þá er þingheimi kunnugt um afstöðu þingmannsins.)

Vinnubrögðin í efnahags- og skattanefnd voru vítaverð að mínu mati. Málið var rifið út í algerri óþökk við …

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur á ný þingmanninn til að gæta hófs í orðbragði.)

Virðulegi forseti. Ég notaði einfaldlega sama orðið sem ég rökstuddi að ég teldi síst vera ofmælt.

(Forseti (ÁI): Já. Það hafði verið notað og forseti biður þingmanninn í fullri vinsemd um að gæta hófs í orðavali.)

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir að ég notaði orðið aftur var að ég var stoppaður í miðri setningu og þá er gott að byrja setninguna aftur þegar maður hefur máls á ný. En af tillitssemi við virðulegan forseta skal ég ekki nota orðið aftur.