137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég byrjaði á áðan voru vinnubrögðin í efnahags- og skattanefnd vítaverð. Þau vinnubrögð að rífa málið út úr nefnd í algerri óþökk við minni hlutann án þess að málið væri klárað, löngu áður en hv. fjárlaganefnd þurfti á álitinu að halda, tel ég að hafi verið afar slæm vinnubrögð. Þetta setti mjög mikið — hvernig skal orða það, þetta setti raunverulega hörku í málið. Minni hluti í hv. efnahags- og skattanefnd skilaði séráliti. Ég tel að minni hlutinn hafi framkvæmt þar góða vinnu. Úttekt Hagfræðistofnunar studdi þá vinnu mjög vel fyrir fjárlaganefnd og m.a. held ég að niðurstaðan af því að þingheimi var ljóst að það þyrfti að koma með fyrirvara hafi byggst á þeirri vinnu.

Vegna þess hvernig vinnubrögðin voru í efnahags- og skattanefnd klauf hópur sig út úr efnahags- og skattanefnd og fór að vinna með fjárlaganefnd. Hann vann allan tímann með fjárlaganefnd að því að skapa þá fyrirvara sem hér eru í breytingartillögum.