137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt við Icesave-samninginn bæði í dag og í gær í 2. umr. Ég komst ekki yfir ákveðin atriði í ræðu minni í gær sem ég verð að fylgja eftir núna í kvöld þó að farið sé að rökkva en það skiptir ekki máli því þetta er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar sem liggur fyrir Alþingi.

Margt hefur verið sagt, margt hefur verið fullyrt, margt hefur verið bent á en sérstaklega gengur þetta mál fyrst og fremst út á það að leiðrétta mistök sitjandi ríkisstjórnar og reyna að krafsa yfir þau mistök sem samninganefndin gerði við Breta og Hollendinga þegar samið var. Það er alveg augljóst að þegar íslenska samninganefndin hitti samninganefnd Breta og Hollendinga voru Bretar og Hollendingar búnir að undirbúa sig vel eins og sönnum samningamönnum sæmir og þar voru engar refjar í þeim samningum. Þar voru að sjálfsögðu ýtrustu kröfur og þannig gengur maður líka til samninga. Tíminn á kannski eftir að leiða það í ljós hvernig íslenska samninganefndin gekk til þessara samninga en það er engu líkara en að íslenska nefndin hafi gengið beint til nefndarinnar og skrifað undir því svo herfilega er hagsmunum þjóðarinnar komið fyrir í þessum samningi að þeim má líkja við nauðasamninga. Þetta hef ég sagt áður í þessari umræðu.

Fólk hefur verið mismunandi duglegt í umræðunni við að benda á fortíðina, benda á einkavæðingu bankanna, benda á þennan og hinn stjórnmálamanninn og benda á ýmsa. Mig langar til að koma því inn í þingræðu sem ég kom með í andsvari í gær. Fyrst verið er að tala um fortíðina í þessu máli skulum við fara alla leið aftur til ársins 1993 þegar lög um Evrópska efnahagssvæðið voru sett, lög nr. 2/1993. Þau tóku gildi 1. janúar 1994. Þá voru, til að rifja það upp með þjóðinni og þingmönnum, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í ríkisstjórn. Það voru forverar kratanna sem sitja nú í Samfylkingunni sem komu lögunum um Evrópska efnahagssvæðið. Við sitjum núna uppi með það og ég ætla að rifja upp með ykkur hvers vegna við sitjum í þessari súpu. Það var vegna gallaðrar reglugerðar sem við þurftum að taka upp frá Evrópusambandinu. Í 2. lið í athugasemdum við lagafrumvarpið sem við ræðum núna segir, og hef ég lesturinn, með leyfi forseta:

„Ísland er á grundvelli EES-samningsins skuldbundið til að innleiða í landsrétt tilskipanir 94/19/EB um innlánstryggingar og 97/7/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.“

Þarna er þetta alveg skýrt. EES-samningurinn hafði tekið gildi og í kjölfarið helltist yfir þjóðina eins og skæðadrífa og gerir enn tilskipanir, reglugerðir og annað sem við þurfum að leiða í lög, taka beint upp úr Evrópurétti, sama hvort það passi á Íslandi eða ekki. Það hafa verið settar reglugerðir sem hafa engu máli skipt og ég nefni í dæmaskyni einn dóm Evrópudómstólsins þannig að við sjáum hvað Evrópusambandið er að sýsla við. Einn daginn komst Evrópudómstóllinn að því að rusl væri vara og mætti því flæða frjálst yfir landamæri.

Þetta er fortíðin úr því að fólk er svona áfjátt í að tala um fortíðina í þessu máli og þetta kemur fyrst og fremst í gegnum þessa reglugerð. Nú kem ég að kjarna málsins sem átti að vera uppistaðan í þessari ræðu, þ.e. ríkisábyrgð vegna þeirrar tilskipunar sem ég talaði um áðan sem við þurftum að taka upp í íslenskan rétt. Á grundvelli hennar innleiddi Alþingi í lok desember 1999 efni hennar í íslenskan rétt með lögum nr. 98/1999, og á grundvelli þeirra laga varð til tryggingarsjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, og sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Hvergi nokkurs staðar í lögunum er talað um eða hefur sá skilningur komið fram í greinargerð að þessi tryggingarsjóður hafi ríkisábyrgð, enda er það alveg ljóst að sjálfseignarstofnun getur aldrei fengið sjálfkrafa ríkisábyrgð.

Ég hef verið að spyrja nefndarmenn í fjárlaganefnd að því í dag hvernig staðið var að vinnunni þar og hef spurt hvort því atriði hafi verið velt upp í fjárlaganefnd sem ég kem nú að. Þannig vill til að þegar mál lendir í ágreiningi þá endar það stundum fyrir dómstólum og þannig er það varðandi þessa tilskipun og það vafaatriði hvort ríkisábyrgð hvíli á þessum innstæðutryggingarsjóði. Frakkar úrskurðuðu um það árið 2000 að innstæðutryggingarsjóður þeirra hefði ekki ríkisábyrgð. Það var komið skýrt fram í Frakklandi á þeim tíma. Gleymum því ekki að lög Evrópusambandsins og þessi tilskipun sem var innleidd í sama rétti er sprottin af sömu rót og á sér upphaf í sama skjalinu í Brussel því að þegar lög eru innleidd í Evrópusambandinu þá gengur það að sjálfsögðu yfir allt sambandið. Hingað kemur þetta í gegnum fjórfrelsið, í gegnum EES-samninginn því að þetta fellur undir þann þátt fjórfrelsisins sem snýr að frjálsu flæði fjármagns.

Nokkur ágreiningur varð um þetta því á sama tímabili kemur upp sama spurning í Þýskalandi og það mál ratar fyrir dómstóla, þ.e. hvort ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingarsjóðum sem eru stofnsettir á grundvelli þessarar reglugerðar. Það fer fyrir Evrópudómstólinn sem er æðsta dómstig Evrópusambandsins. Lengra getur það ekki farið. Þá er það búið að fara í gegnum undirrétt í heimalandinu, ígildi hæstaréttar í heimalandinu, og svo er því vísað til Evrópudómstólsins. Svona er þetta, þar er endanlegur úrskurður og honum er eðlilega ekki hægt að áfrýja. Þessi dómur er nr. C/222/2002, ef fólk vill fletta þessu upp. Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum því það mundi brjóta samkeppnislög sambandsins. Þarna er þetta alveg skýrt. Þarna höfum við úrskurð frá seðlabanka Frakklands og þarna höfum við dóm frá Evrópudómstólnum.

Hér á Íslandi var litið fram hjá þessu þegar allt hrundi. Þetta er svo mikil linkind og eins og ég hef bent á í andsvörum, þarna erum við komin með grunninn að þessu máli, þarna eigum við að byrja. Mér duga ekki fyrirvarar við Icesave-samninginn um að þetta ákvæði sé þarna inni. Af hverju gildir það ekki hér á landi? Það kemur í gegnum EES-samninginn að þetta sé frjálst flæði fjármagns og þá erum við bundin og það eru dómafordæmi fyrir því að við erum bundin úrlausnum Evrópudómstólsins af því að við höfum aðild að þessu kerfi og svo í gegnum EFTA-dómstólinn. Út af hverju var litið fram hjá þessu atriði?

Þá spyr ég líka: Hvernig stendur á því að Bretar og Hollendingar leyfa sér það þegar þeim hentar, þessi klúbbur þegar þeim hentar að beita sér? Þetta er sá klúbbur sem Samfylkingin vill komast í lið með og eyða tíma sínum með sem er þannig að þegar þeim hentar breyta þeir reglum sínum. Það hentaði þeim í þessu tilfelli þegar heilt bankakerfi hrundi, ég átti eftir að minnast á það að svo er líka náttúrlega vafamál með innstæðutryggingarsjóð hvort hann nái yfir bankahrun heils lands eða nokkra banka. Ég spyr aftur: Hvernig í ósköpunum kom það til að Bretar og Hollendingar láta sig hafa það að ráðast á smáþjóð með samkeppnislög Evrópusambandsins að vopni og krefjast þess að við brjótum þau á Íslandi með því að heimta ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum?

Þessi samningur og þetta mál verður verra og verra í hvert sinn sem ég gríp niður í frumvarpið, samningana, nefndarálitin. Þetta er hreint með ólíkindum og ég minni á það enn á ný: Þetta er samningurinn sem enginn mátti sjá. Þið sjáið hvað stjórnarandstaðan er búin að vera þrautseig í málinu. Þetta er komið upp á borðið, þetta er sá versti samningur sem nokkur einasta þjóð hefur gert. Þetta eru slæmar fréttir fyrir þjóðina. Þessu verður að hafna.