137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skörulega ræðu. Þetta var góð yfirferð hjá henni en mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns þar sem við eigum það báðar sameiginlegt að vera nýir þingmenn á Alþingi. Við höfum upplifað ýmislegt varðandi vinnubrögð þingsins á þessu sumarþingi. Eftir alla þessa lífsreynslu og sérstaklega varðandi þetta mál hljótum við að ætla okkur að draga einhvern lærdóm af því sem hér hefur farið fram.

Svo ég rifji það í örstuttu máli upp kom fyrir þingið mál sem var þannig vaxið að það byggði á samningi, einum stærsta samningi sem gerður hefur verið fyrir hönd íslenskrar þjóðar. Við alþingismenn áttum að samþykkja ríkisábyrgð án þess að fá að sjá þessa samninga. Síðan hófst mikið þref og við þingmenn náðum að kría út fleiri og fleiri gögn eftir því sem vikurnar liðu. Það endaði þannig að ríkisstjórnarflokkarnir sáu að þeir voru ekki með meiri hluta í málinu og létu því undan þeim þrýstingi sem hafði skapast hjá hinum nýja meiri hluta á Alþingi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við lærum af þessu máli og ég tel að mikilvægasta lexían sé sú að það sé vert á tímum sem þessum að sýna samstöðu áður en hafist er handa í svona stórum málum. Jafnvel gæti ríkisstjórnin lært það af þessu máli að undirrita ekki samninga sem hún hefur ekki meiri hluta fyrir á Alþingi. Þetta er það sem ég tel að við eigum að læra af reynslunni. En við nýir þingmenn höfum orðastað í þessari umræðu og m.a. um það hvernig við sjáum að hægt sé að bæta starfshættina. Hér gerðust miklir hlutir í fjárlaganefnd þar sem nýr meiri hluti myndaðist. Ég óska eftir því að hinn nýi þingmaður deili með mér og þingheimi öllum og þjóðinni hvaða lærdóm hún dregur af þessu öllu saman.