137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, það er alltaf jafngaman að hlusta á hana í ræðustólnum.

Mig langar aðeins til þess að ræða við hv. þingmann um ræðu sem var flutt einmitt hérna fyrr í dag og má segja að hafi hleypt öllu í bál og brand. Það er ræða hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, svokallaðs varaformanns fjárlaganefndar, sem er núna búinn að innleiða má segja nýtt hugtak inn í íslenskuna. Í staðinn fyrir að tala um að menn séu úti að aka getum við sagt núna að einhver sé úti á sjó. Þar sagði hann og fullyrti: Samningunum hefur ekki verið breytt með nokkrum einasta hætti. Klykkti síðan út líka með því að tala um hversu góðir þessir samningar séu.

Mig langar svolítið til þess að heyra túlkun þingmannsins á því, eins og staðan er núna og þeir fyrirvarar sem liggja fyrir, hvort sé rétthærra þá fyrir breskum dómstólum, fyrirvarar við samninginn, eins og þeir liggja fyrir í breytingartillögum meiri hlutans, eða samningurinn sjálfur. Það virðist nefnilega vera að þingið, þrátt fyrir þessa miklu samstöðu sem við höfum verið að heyra bæði í gær og í dag, í fjölmiðlum og hérna í ræðustólnum, þá virðumst við vera alla vega þrí- ef ekki fjórklofin. Menn tala jafnvel um að fyrirvararnir hafi ekkert að segja, eins og hv. þm. Björn Valur. Sumir tala eins og samningurinn standi óbreyttur en fyrirvarar muni hafa áhrif á túlkun Breta og Hollendinga. Síðan verð ég að segja að sjálfstæðismenn hafa trúað því hingað til að þetta væri einhvers konar gagntilboð meðan aftur á móti við höfum hins vegar verið meira og minna þeirrar skoðunar, framsóknarmenn, að það sé lítið gagn að þessu.

Það væri mjög áhugavert einmitt að heyra frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur því að hún er lögfræðingur og ég mundi gjarnan vilja heyra hennar túlkun á þessu.