137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þá liggur það fyrir samkvæmt skoðun hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að það þarf undirritað á blað frá Bretum og Hollendingum að þeir skilji fyrirvarana eins og við gerum. Ég veit ekki til þess að búið sé að fá neina undirritun frá Bretum og Hollendingum og raunar hefur komið fram í fjölmiðlum þegar haft hefur verið samband við fulltrúa þessara ríkisstjórna að þá segjast þeir ætla að bíða eftir því að við samþykkjum ríkisábyrgðina. En þá erum við búin að samþykkja hana. Þó að ég hafi talið að hv. þm. Björn Valur Gíslason hafi verið úti á sjó í þessu máli þá er hann kannski eins og lítið barn og hefur bara álpast til þess að segja bara satt og rétt frá.

Hins vegar eru aðrir hlutir sem ég geri miklar athugasemdir við og ég fullyrði það að þingmaðurinn sé algjörlega að misskilja þegar hann talar um efnahagslegu fyrirvarana (Forseti hringir.) að þar sé um að ræða dýrari leið (Forseti hringir.) en þá leið sem fjármálaráðherra lagði upp með í upphafi.