137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innlegg hans. Þingmaðurinn segir að hann skilji ekki hvernig Bretar geti kippt stjórnarskrá Íslendinga úr sambandi. Þetta er svo einfalt, þegar maður útskýrir þetta. Hér er samningurinn eins og hann leggur sig og frumvarp til staðfestingar á honum og hér eru breytingartillögurnar. Fyrstu línur breytingartillagnanna ganga vissulega út á það að samningurinn taki ekki gildi nema ríkisábyrgð sé og þetta séu þeir fyrirvarar sem settir eru. Þetta hér er annað skjal. Þau aðfaraorð sem hv. þingmaður las hér upp eru aðfaraorð fyrirvaranna.

Það væri alveg sama þótt þetta væri heil bók, hún rúmast ekki innan samningsins og um það snýst málið. Í breska samningnum og hollenska stendur að fara skuli með ágreining fyrir breska dómstóla. Um leið og málið er samþykkt á Alþingi gilda um það bresk lög og breskir dómstólar. Þetta eru ein af þeim réttindum og rétti þjóðarinnar sem samninganefndin gaf bara eftir sisvona ásamt friðhelgisréttindum og öðru, enda er þetta nauðasamningur.

Í venjulegum samningum á milli landa er það þannig að ef viðkomandi land er aðili að þeim dómstóli, aðili að þessu common law-kerfi, þá er í New York og London gjarnan nefnt sem millistig á milli landa. Auðvitað átti að fá óháðan dómstól, ekki að Bretar væru með málið á heimavelli eftir þessa kúgun og þennan nauðasamning sem þeir hafa beitt okkur. Ég kom inn á það í gær að það er m.a.s. vitnað í þennan samning og það eru lög í Bretlandi frá 1978 um afnám friðhelgisréttinda þjóða og auðvitað er það ákvæði inni í samningnum. Það er búið að afsala okkur friðhelgi og eftir því verður dæmt eftir breskum lögum (Forseti hringir.) komist þessi samningur á.