137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir. Ég ræddi fyrr í kvöld um að hv. nefnd fengi á sinn fund tvo eða þrjá sérfræðinga í breskum rétti til að fá úr því skorið hvort það gæti gerst að breskur dómstóll gæti tekið úr sambandi fullveldi Íslands um það að stjórnarskrá okkar gildi á Íslandi. Ég undirstrika það aftur að þetta verði gert.

Ég vil spyrja hv. þingmann hverju þyrfti að breyta í þessu samkomulagi til að Framsókn yrði með í samstöðunni. Sér hv. þingmaður einhverja leið til þess að reglurnar séu þannig að þær haldi og komi í veg fyrir þær efasemdir sem hv. þingmaður hefur þannig að Framsókn geti verið með öðrum þingmönnum á þinginu sem örugglega vilja ekki hafa einhvern misskilning í gangi?