137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt þetta mál í 2. umr. núna í tvo heila daga og ég held að segja megi um umræðuna í lok þessa síðari dags umræðunnar að kominn sé fram fjöldinn allur af athugasemdum sem mikilvægt er að fjárlaganefnd hafi góðan tíma til að fara yfir, gaumgæfa, kalla til sín sérfræðinga og umsagnaraðila hvort sem eru lögfræðingar eða aðrir innan úr stjórnkerfinu til að gefa skýringar á þeim atriðum sem um er að ræða. Ég lít á það sem eitt helsta vandamál okkar í þeirri stöðu sem er búið að tefla þessu máli í að við erum annars vegar með tiltölulega bólginn lánasamning eða reyndar lánasamninga, þ.e. lánasamninga sem kveða á um gríðarlega háar fjárhæðir og miklar endurgreiðslur innstæðutryggingarsjóðsins til Breta og Hollendinga. Í þessum lánasamningum er ekki gert ráð fyrir því að efnahagsþróunin á Íslandi, endurheimtur vegna lánasafns Landsbankans eða einhverjar aðrar aðstæður, einhver óvænt ytri atvik, geti með nokkru móti haggað þeirri greiðsluskyldu sem hvílir á innstæðutryggingarsjóðnum. Það er af þeirri ástæðu þegar samningarnir komu hingað fyrir þingið og óskað var eftir ríkisábyrgð fyrir samningum sem eru þessa efnis sem þingið segir: Hér er of mikil áhætta á ferðum. Við erum ekki tilbúin til þess að setja þá áhættu á íslenska ríkið, skattgreiðendur í þessu landi sem felst í lánasamningunum. Þess vegna hefur málið þróast þannig í þinginu að í stað þess að þingið veiti fyrirvaralausa ríkisábyrgð þá hlaðast upp fyrirvararnir sem þingmenn hafa komið sér saman um. Það liggur fyrir breytingartillaga frá fulltrúum Vinstri grænna, Borgarahreyfingarinnar og Samfylkingarinnar frá meiri hluta fjárlaganefndar um að setja ýmiss konar fyrirvara á ríkisábyrgðina. Ef þetta kemur upp á gildir ríkisábyrgðin ekki. Ef okkur gengur illa að koma hagkerfinu í gang þá gildir ríkisábyrgðin bara fyrir því sem við teljum okkur hafa efni á. Ef það stendur mikið út af lánasamningunum í lok lánstímans þá er engin ríkisábyrgð fyrir þeirri fjárhæð.

Það er þetta samhengi málsins sem ég vil undir lok umræðunnar gera að sérstöku umtalsefni vegna þess að þetta er auðvitað mjög óheilbrigt, að vera með lánasamning sem ríkisábyrgðin stendur fyrir sem endurspeglar ekki það samkomulag sem tókst með aðilunum. Samningurinn sjálfur, lánasamningurinn sem ríkisábyrgðin á að standa að baki, á auðvitað að endurspegla samkomulagið. Það er samningurinn sem aðilarnir koma sér saman um. En við erum að þvælast með aðstæður í málinu sem eru allt öðruvísi, sem eru þannig að samningurinn er eins og hann er, sem eru í reynd einhliða kröfur Hollendinga og Breta sem ríkisstjórnin á endanum gafst upp fyrir, og svo ríkisábyrgðin sem á að vera einhvern veginn allt öðruvísi, full af fyrirvörum og takmörkuð að ýmsu leyti. Við höfum verið þeirrar skoðunar í Sjálfstæðisflokknum að við þyrftum að gera allt það sem hægt væri í þessu máli til að koma í veg fyrir það stórslys sem hefði orðið ef fallist hefði verið á ríkisábyrgðina án allra fyrirvara.

Við höfum barist fyrir því í meðferð þingsins á málinu að því yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar einfaldlega til þess að semja upp á nýtt. Í meðförum þingsins hefur komið í ljós að það stefndi ekki í neinn meiri hluta fyrir þeirri málsmeðferð. Sú tillaga mun koma fram eins og boðað hefur verið af framsóknarmönnum, en það liggur fyrir, það er fullreynt að mínu áliti að það mun ekki takast meiri hluti fyrir því að fella málið í þann farveg. Við þær aðstæður töldum við betra að leggja okkar af mörkum eins og ég vék að áðan til að betrumbæta málið. Við töldum það vera skyldu okkar og ábyrgðarfyllstu nálgunina í málinu að reyna að benda á ágallana og vinna að samstöðu um að lagfæra það sem þyrfti í málinu. Efnahagslegu fyrirvararnir sem svo eru nefndir í umræðunni snúast um það að við setjum þak á greiðslurnar, við segjum að við höfum, eftir því hvernig hagkerfið fer af stað í framtíðinni næstu árin, úr svo og svo miklu að spila til að standa í skilum með lánasamninga af þessum toga. Við ætlum bara að ráðstafa að hámarki 6% af vexti landsframleiðslunnar til að standa í skilum með samning af þessum toga. Það kemur ekki til greina að lofa greiðslum sem eru umfram þetta.

Það er stórmerkilegt að heyra hvernig umheimurinn hefur tekið þessum skilaboðum frá Alþingi. Fram á ritvöllinn hafa ruðst prófessorar í hagfræði og ritað greinar í erlend dagblöð og sagt: Þessi lausn sem Alþingi Íslendinga er að hugsa um er auðvitað eina skynsemin þegar þjóðir eru að semja sín á milli um skuldaskil. En það er ólíklegt að þetta verði samþykkt af Bretum og Hollendingum vegna þess að þetta gæti gefið svo slæmt fordæmi, sagði prófessorinn. En við skulum sjá hvað setur í því efni.

Það er auðvitað síðan þannig í umræðu um Icesave-deiluna við Breta og Hollendinga að yfir henni vofir alltaf stóra spurningin: Hvers vegna greiða eitthvað yfir höfuð ef engin er ríkisábyrgðin fyrir Icesave-skuldbindingum? Við höfum átt við þessa spurningu alveg frá því að þingsályktunartillagan kom fram á fyrra þingi af fyrri ríkisstjórn. Þingið tók afstöðu til þeirrar spurningar í desembermánuði í fyrra. Þá komst þingið að þeirri niðurstöðu að það þjónaði hagsmunum okkar Íslendinga best að leita leiða til að komast að samkomulagi við þessar tvær þjóðir sem í hlut eiga. Það var engu lofað um niðurstöðuna. Það var ekki fallið frá lagalegri stöðu okkar í málinu en sagt sem svo að þar sem kominn væri skynsamlegur viðræðugrundvöllur væri best að leita leiða til að leysa deiluna. Það var ýmislegt sem hékk á spýtunni. Við þekkjum þau mál eins og t.d. lánin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og margt fleira. Hvort sem við vorum sátt við það eða ekki að slík mál væru tekin inn í þetta samhengi þá var það engu að síður þannig.

Síðan koma þessir slæmu samningar og Sjálfstæðisflokkurinn sagði á fyrsta degi eftir að meginatriði samninganna voru kynnt fyrir okkur: Þetta er ekki það sem við vorum að meina. Þetta eru samningar sem við munum aldrei geta stutt. Og við höfum frá fyrsta degi barist gegn því að þingið mundi staðfesta samningana eins og ríkisstjórnin kláraði þá. Athugasemdum okkar hefur allt fram á síðustu daga markvisst verið vísað á burt, ýmist sem einhvers konar misskilningi, ýmist sem slæmri lögfræði eða bara einhverjum pólitískum athugasemdum sem hafa ekkert með efnisatriði samninganna að gera. En eftir því sem málinu vatt fram og fleiri fræðimenn komu inn í umræðuna, blönduðu sér inn í þau atriði sem um var að ræða rann það upp fyrir meiri hluta þingsins að ekki var hægt að veita ríkisábyrgð eins og ríkisstjórnin fór fram á.

Fyrir mér voru það að sjálfsögðu stór tíðindi sem síðar kom í ljós eftir að málið var lagt fram að það hafði verið tekið í gegnum ríkisstjórnina í ágreiningi. Ríkisstjórnin stóð ekki einu sinni heil að baki málinu. Síðan kom, eftir því sem umræðan þroskaðist á þinginu, líka í ljós að það var ekki full samstaða meðal stjórnarflokkanna tveggja þannig að málið í heild sinni virtist vera í algeru uppnámi. En það fór í þennan farveg sem það fór að nýr meiri hluti í þinginu tók málin í sínar hendur og setti þessi ströngu skilyrði sem í upphafi var svarað sem algerum óþarfa og misskilningi en er núna að verða staðreynd vegna þeirrar samstöðu sem myndaðist um þessa hluti.

Á þessum tímapunkti vil ég segja það að jafnvel þó meiri hluti fjárlaganefndar hafi verið á réttri leið og hafi t.d. fallist á tillögur um efnahagslega fyrirvara sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd börðust fyrir þá er enn mikil vinna eftir óunnin. Það þarf að koma til móts við það vandamál sem ég var að lýsa áðan að samningarnir verða auðvitað að taka breytingum til samræmis við takmörk ríkisábyrgðarinnar. Innstæðutryggingarsjóðurinn má ekki lenda í því að vera í vanskilum, að á hann standi skuldbindingar sem hann getur ekki risið undir. Það dugar okkur ekki að horfa til hlutar ríkisins og þess hvernig við getum takmarkað áhættuna fyrir ríkið. Það er óásættanlegt fyrir innstæðutryggingarsjóðinn að skrifa upp á lán sem fyrirsjáanlegt er að hann geti ekki risið undir. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða.

Við þurfum líka að skoða það hvort við getum styrkt betur lögfræðilegu fyrirvarana, hvernig við getum knúið á um það að stjórnvöld leiti allra leiða til að láta reyna á þá réttarstöðu sem uppi er í málinu og fáist skorið úr þeim réttarágreiningi sem uppi hefur verið um skylduna til að veita ríkisábyrgð þá njótum við góðs af þeirri niðurstöðu í samræmi við hana.

Til sögunnar hafa verið nefnd enn fleiri atriði svo sem það að tryggja þurfi að breytingar á ríkisábyrgðinni verði órjúfanlegur hluti af samningnum sjálfum og að sök breskra stjórnvalda sem kynni að koma í ljós … Er ekki rangt farið með tímann hérna, er ég ekki með tvöfaldan ræðutíma? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁI): Samkvæmt klukkunni og forritinu er svo ekki.)

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég sé búinn að tala í tíu mínútur en hafi …

(Forseti (ÁI): Já, það er rétt.)

Þá er það þannig að ef í ljós kemur að bresk stjórnvöld hafi með gáleysi sínu, vanrækslu á eftirlitsskyldu í Bretlandi, valdið tjóni fyrir innstæðueigendur þar í landi, skapað sér bótaskyldu, þá hlýtur sú sök, það tjón sem þeir hafa sjálfir valdið og er verið að gera upp í þessu máli að koma til frádráttar í því uppgjöri milli aðilanna sem við erum hér að ræða um. Við þurfum að tryggja að þetta sé haft með í reikningunum.

Við hljótum líka að gera kröfu til þess að leiðir til að tryggja mögulegar bætur vegna beitingar hryðjuverkalaganna og þess gríðarlega tjóns sem varð vegna þeirra fáist tekið með í reikninginn í þessu uppgjöri. Þetta hlýtur að kosta einhvern tíma og við höfum fengið fyrir því vilyrði hér á meðan á umræðunni hefur staðið að málið verði skoðað á milli umræðna af gaumgæfni í fjárlaganefnd og menn flýti sér ekki hraðar en efni málsins leyfir.

Það er þannig með þessa lögfræðilegu fyrirvara að erfitt er að ganga svo langt á sama tíma og verið er að reyna að vinna að samkomulagi í málinu að gera það að skýrri forsendu fyrir gildi ríkisábyrgðarinnar að skorið hafi verið úr um þetta atriði. Það verður í reynd að fara aðra hvora leiðina, og ég tel að við höfum nú þegar valið samningaleiðina. Ég lít þannig á að enn sé ekki kominn á sá samningur sem við hér á þinginu sættum okkur við, sem meiri hluti þingsins getur sætt sig við. En með því gagntilboði sem er verið að vinna að núna kann að vera að slíkur samningur geti tekist. Takist hins vegar ekki samningur á grundvelli gagntilboðs frá þinginu er ég þeirrar skoðunar að við eigum enga aðra valkosti eftir í þessu máli en að segja við Breta og Hollendinga og aðra þá sem fylgjast með framvindu málsins að við förum einfaldlega fram á það að fá skorið úr um þann mikla og djúpa réttarágreining sem er til staðar. Við höfum ekki enn gefið það frá okkur og við eigum aldrei í þessu máli að sætta okkur við einhverja pólitíska afarkosti. Við látum ekki stilla okkur upp við vegg, við látum ekki bjóða okkur það sem allir sjá að er ósanngjarnt, óeðlilegt að fara fram á við okkur að við föllumst á að taka á okkur sem byrðar. (Gripið fram í.) Við höfum nefnilega ekki enn þá veitt ríkisábyrgðina fyrir þessum skuldbindingum og ég hef alla tíð sagt að ég neiti að trúa því að Evrópuþjóðirnar, Evrópusambandsþjóðirnar allar 27, eða þeir vinir okkar á Norðurlöndunum sem hér eiga í hlut, og þar erum við t.d. með Norðmenn sem eru enn þá utan, að þær ætli að halda þannig á málinu gagnvart okkur að horft verði fram hjá þessari sjálfsögðu kröfu ef allar leiðir hafa verið reyndar til þess að ná samkomulagi.

Það er mikilvægt að hafa í huga að íslensk stjórnvöld hafa í fyrsta lagi frá upphafi sagt að við ætlum að virða allar okkar alþjóðlegu skuldbindingar. Það var í reynd það sem viðskiptaráðuneytið var að segja í bréfaskrifunum fyrir hrunið. Það var í reynd ekki verið að segja annað en að við könnumst við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem hér er verið að fjalla um og við munum virða þær. Það var aldrei sagt nokkurn tíma að lofað yrði ríkisábyrgð umfram lagaskyldur eða ríkisábyrgð á allri þeirri fjárhæð sem um er að ræða, þ.e. þessum 20 þúsund evrum á reikning. Þar sem við höfum aldrei fallist á þetta og ávallt haldið til haga okkar lagalega rétti eigum við enn þá þann kost í bakhöndinni — ef málið þróast með þeim hætti að Bretar og Hollendingar sætta sig ekki við þá þrengingu á ríkisábyrgðinni sem við erum að vinna að hérna á þinginu — að segja einfaldlega: Ja, þá er það þannig að það er fullreynt með samningaleiðina og við viljum að skorið verði úr þessu fyrir hlutlausum dómstólum.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef sagt í fyrri ræðum mínum í þessu máli um dómstólaleiðina. Menn segja að ekki sé hægt að leggja málið undir dómstól en auðvitað er það þannig að hann er hérna hinum megin við Austurvöll, það er Héraðsdómur Reykjavíkur sem málið ratar til ef menn gera ágreining um skylduna til þess að greiða, það er bara hinn eðlilegi farvegur. Sá sem heldur á kröfunni gerir kröfu á Landsbankann. Landsbankinn segist ekki geta gert upp, málið fer til innstæðutryggingarsjóðsins, hann á ekki peninga til að greiða og þess vegna er honum stefnt og það mál fer inn í Héraðsdóm Reykjavíkur. Þannig mun verða leyst úr þessu á endanum. Við höfum hins vegar boðist til þess að finna annan hlutlausan dómstól.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram áður en 2. umr. lýkur. Það er skoðun mín að þingið sé á réttri leið. Það er enn mikil vinna eftir fyrir fjárlaganefnd til þess að klára. Við munum í þeirri vinnu sem þar er fram undan leggja áherslu á helstu atriði sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa í umræðunni í gær og í dag haldið á lofti. Það þarf að þétta efnahagslegu fyrirvarana, það þarf að skoða leiðir til þess að þétta líka þessa lagalegu fyrirvara og við þurfum að taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa verið að berast, t.d. um að málið sé ekki þannig afgreitt héðan af þinginu að einhver vafi leiki á því hvort fyrirvararnir haldi þegar upp er staðið. Síðan þarf að taka tillit til innstæðutryggingarsjóðsins eins og ég vék að áðan, hann getur auðvitað ekki sætt sig við það að sitja uppi með skuldbindingar ef ríkisábyrgðin er mjög takmörkuð. Að mínu áliti væri heppilegast að þannig væri gengið frá málinu að lánasamningarnir tækju breytingum í samræmi við ríkisábyrgðina.

Heilt yfir er ég jafnframt þeirrar skoðunar eins og ég vék að í fyrri ræðu minni í málinu að eðlilegast væri fyrir samningsaðilana að setjast að nýju niður, endurgera lánasamningana sjálfa þannig að þeir endurspegli samkomulagið og ekki séu allir þessir fyrirvarar og takmarkanir úti um allt á ríkisábyrgðinni sem við erum að tala um að gera núna. Það er kominn tími til þess fyrir Breta og Hollendinga að sætta sig við að Íslendingar muni ekki láta troða ofan í kokið á sér skuldbindingum sem þeir geta ekki kyngt og séu ekki tilbúnir til þess að leggja á komandi kynslóðir í landinu. Stærðargráðurnar í þessu máli eru sem betur fer að renna upp fyrir kollegum okkar á öðrum þjóðþingum, þetta eru miklu, miklu stærri tölur en svo að ein þjóð geti krafist þess af annarri að hún samþykki þær umyrðalaust og önnur mál séu jafnvel tekin í gíslingu til þess að þvinga þá niðurstöðu fram. Þetta er miklu stærra mál en svo.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að óska fjárlaganefnd góðs gengis í þeirri vinnu sem er fram undan. Ég vonast til þess að þar geti tekist áframhaldandi gott samstarf og ég legg mikla áherslu á að við tökum okkur þann tíma sem þarf til þess að vinna að betrumbótum á málinu. Jafnvel þó að allir á þingi séu orðnir þreyttir eftir að hafa verið hér fram undir miðnætti dag eftir dag og marga næturlanga fundi megum við aldrei gleyma því að við erum að fjalla hér um ráðstafanir sem munu fylgja okkur til áratuga og fjárhæðirnar eru stjarnfræðilegar og réttlæta alla vinnu, hverja einustu mínútu sem við erum tilbúin til þess að leggja í þetta verk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)