137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það liggur nú ljóst fyrir að við munum væntanlega greiða atkvæði um þetta mál eftir 2. umr. á eftir, klukkan hálfellefu, og hefur í rauninni náðst samkomulag um það. Það er hins vegar ljóst að verkefnið er og var ærið þegar þingið fékk það í sínar hendur eftir mikla handvömm af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við erum búin að fara yfir það bæði í fyrri ræðum við þessa umræðu en ekki síður við 1. umr. þessa máls. Ég held að allir átti sig á því að ábyrgð ríkisstjórnarinnar í þessu máli er mikil, burtséð frá forsögunni er það ríkisstjórnin sem hefur haldið algjörlega utan um þetta mál og komið heim með þennan vonda samning sem þingið er núna að reyna að bjarga.

Við sjálfstæðismenn stóðum frammi fyrir þeim valkosti að fella samninginn og láta bara ríkisstjórnina um allt þetta bix, freistandi mjög fyrir flokk í stjórnarandstöðu, freistandi að hleypa öllu málinu í bál og brand innan ríkisstjórnar, í samfélaginu, ekkert að reyna að ná þeirri sátt sem við þurfum á að halda í samfélaginu, ekki taka eitt skref í átt að auknum sáttartóni bæði hér inni á þingi og utan við þingið. Síðan var hinn valkosturinn sem við sjálfstæðismenn stóðum frammi fyrir og hann var sá að breyta þessum vonda samningi í rauninni á þann veg eins og talað hefur verið um og formaður okkar sjálfstæðismanna, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur talað um að er í rauninni gagntilboð.

Við fórum í þann leiðangur að breyta samningnum, að reyna að stuðla að breiðri pólitískri samstöðu sem hefði mikla þýðingu fyrir okkur hér inni á þingi, úti í samfélaginu en líka ákveðin skilaboð til þjóða heimsins hvernig við værum að vinna þetta mikilvæga mál. Að mínu mati sýndum við mikla ábyrgð þegar að þessum þætti kom og okkar fólk í fjárlaganefnd og aðrir þingmenn hafa staðið sig með eindæmum vel.

Það verður hins vegar að koma fram og við verðum að tryggja það að um leið og við höfum sýnt þessa ábyrgð gerum við þá kröfu að þingmenn í stjórnarliðinu sýni líka þá ábyrgð að veita fjárlaganefnd þann tíma sem nefndin þarf á að halda, því að það liggur alveg ljóst fyrir að það þarf að tala skýrar um þessa fyrirvara. Það má engin óvissa vera eftir um það að þessir fyrirvarar haldi hugsanlega ekki. Gott og vel, þá verðum við einfaldlega að horfast í augu við það að ef Hollendingar og Bretar segja: Þessir fyrirvarar halda ekki, samningurinn er of breyttur, þá gengur þetta ekki. Ég segi líka: Þá það. Ef Hollendingar og Bretar segja: Þetta eru það miklar breytingar á samningnum og ríkisábyrgðinni að við verðum að semja upp á nýtt, og þá segjum við einfaldlega: Þá það, og þá semjum við upp á nýtt og byrjum með hreint borð.

Ég vil undirstrika það líka að við höfum aldrei gefið frá okkur þann möguleika að fara með málið fyrir dómstóla ef svo ber undir en við viljum fyrst reyna að leysa þetta á pólitískum forsendum því að við teljum það þjóna hagsmunum þjóðarinnar. Við segjum sem sagt: Það þarf að styrkja fyrirvarana eftir þessa umræðu núna, bæði í dag og á undanförnum dögum, og það þarf að tryggja að þeir standi undir því að við séum að efla og styrkja íslenska hagsmuni og hagsmunagæslu. Til þess þarf fjárlaganefnd tíma.

Ég gat um það í dag að það þýðir ekki að koma til okkar og segja: Við erum búin að funda, fínt, hvað hafið þið fram að færa? Ókei, við ætlum ekki að hlusta á ykkur neitt frekar. Og þar með er fundurinn búinn. Við treystum á það að sú góða samstaða og samvinna sem hefur náðst í fjárlaganefnd á milli okkar fólks og m.a. forustumanna innan fjárlaganefndar að það traust haldi áfram og menn nái að vinna málið þannig að eftir standi þingheimur frammi fyrir því að geta sagt þá já við fyrirvörum sem eru þess eðlis að þeir haldi utan um okkar hagsmuni. Ef fjárlaganefnd þarf tvo, þrjá, fjóra, fimm daga eða viku þá fær hún þann tíma af því að markmiðið er, okkar sameiginlega markmið, að tryggja íslenska hagsmuni.

Það er eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hér áðan: Við ætlum ekki að láta troða hverju sem er ofan í kokið á okkur, það kemur ekki til greina. Íslenska þingið, elsta þjóðþing í heimi, talar skýrt og það vissu Hollendingar og Bretar. Þeir áttuðu sig alveg á því þegar þeir gerðu ráð fyrir því að samningurinn og ríkisábyrgðin þyrfti að fara fyrir þingið að það þýddi að þeir væru líka að taka þá áhættu að þingið mundi gjörbreyta samningnum. Ég trúi því ekki að Hollendingar og Bretar líti á eigin löggjafarþing sem þau séu bara einhverjar stimpilstofnanir, það er ekki og má ekki verða með íslenska þingið. Við þurfum að breyta vinnubrögðum hér, innan ríkisstjórnar, innan stjórnkerfis og við verðum að fara að horfast í augu við það. Það er fullkomlega eðlilegt að við förum fram á það að fjárlaganefnd fái þann tíma sem þarf til þess að styrkja fyrirvarana.

Það er svolítið gaman að fylgjast með því hvernig umheimurinn sér okkur bregðast við. Allt þetta tal hjá forustumönnum í ríkisstjórninni, hjá hæstv. forsætisráðherra, að ekki mætti hrófla við neinu og reyna að senda út þau skilaboð að þetta sé bara allt innan ramma samningsins. Það hefur sýnt sig að það voru orðin tóm þegar bent var á að við fengjum allan umheiminn á móti okkur. Skilningur í okkar garð hefur vaxið og hann hefur aukist og þess vegna þurfum við að halda uppi okkar máli, okkar forsendum hvernig og af hverju við nálgumst málið eins og við erum að gera.

Menn hafa líka verið að ræða um þann leiðara sem m.a. birtist í Financial Times um að það væri kannski litla Ísland, litla, stóra, fallega landið okkar, sem væri að stuðla að því að sú rangláta regla í rauninni sem hefur verið við lýði í alþjóðaheiminum gagnvart fátækari löndum, þegar þeim hefur verið lánað, Ísland væri að stuðla að breytingu í þá veru að þau ríki sem tækju lán greiddu bara í samræmi við það sem þau gætu. Að við getum bara greitt í samræmi við greiðslugetu okkar. Það væri í rauninni stórkostlegur árangur ef það mundi nást. Það væri líka stórkostlegur árangur ef þessi leið okkar hér í þinginu — ekki ríkisstjórnarinnar, þetta er ekki leið ríkisstjórnarinnar heldur þingsins, það er þingið sem er að umbreyta þessu — að þessi leið okkar, sem hefur vakið alþjóðaathygli, að við ætlum bara að greiða í samræmi við það sem við getum til 2024 og ekki lengur, mundi stuðla að breytingu í umheiminum. Það voru ekki forustumenn í ríkisstjórninni sem stuðluðu að þessari hugarfarsbreytingu. Þau höfðu ekki kjark eða þor til þess að standa í lappirnar gegn Hollendingum og Bretum, allt af ótta við að við fengjum þennan samning í hausinn. Þau voru ekki að hugsa um reisn þingsins, þau voru ekki að hugsa um reisn þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Menn eiga að taka því fagnandi hvernig þingið er búið að taka á þessu og veita þinginu þann tíma sem þingið þarf á að halda til að gæta að íslenskum hagsmunum. Menn eiga að taka þessu fagnandi og ekki að vera að reyna að setjast á menn í bakherbergjum til þess að klára málið eins og upp var lagt með í morgun, að klára málið bara á morgun, bingó, búið á morgun. Það gengur ekki. Til þess erum við búin að fá allt of miklar og sterkar ábendingar að þingið getur ekki unnið með þeim hætti.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áður að fjárlaganefnd verður að hnykkja á því sem m.a. forsætisráðherra hefur sagt, að ríkisábyrgðin gildi þá eingöngu til ársins 2024, það er ekki nægilega skýrt tekið á því eins og staðan er í dag. Þá ætti mönnum að vera það að meinalausu að setja það algjörlega hreint og klárt inn í fyrirvarana að þetta gilti til 2024. Það sama er varðandi fyrirvarana sem slíka, við verðum að fá alla hugsanlega ráðgjöf, hvort sem hún er erlend eða innlend, til að tryggja að þessir fyrirvarar haldi. Ég sagði það í dag og ég held að ég tali fyrir hönd okkar allra sjálfstæðismanna: Ef við fáum ekki vissu fyrir því að þessir fyrirvarar haldi munum við ekki ljá þeim atkvæði okkar við 3. umr.

Á þessum forsendum erum við núna að fara eftir korter í atkvæðagreiðslu. Við treystum því og trúum að þessi samstaða um vinnubrögð, ný og betri vinnubrögð hér inni á þingi haldi, að fjárlaganefnd fái það svigrúm og þann tíma sem þarf til þess að taka enn betur á þeim fyrirvörum sem við höfum verið að gera, þá þeim breytingum til að þjóna fyrst og fremst íslenskum hagsmunum og íslenskri þjóð.