137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr hv. þingmann, og ég held að þjóðin muni fylgjast vel með því hvernig stjórnarliðar tala í dag í þessu máli, er sú að ef menn ætla að ná sátt í málinu er leiðin til þess ekki sú að gera lítið úr þessum breytingum sem svo sannarlega, eins og lögmaðurinn sem ég vitnaði til sagði, hafa gerbreytt málinu. Í rauninni finnst mér það vera afskaplega veikt orðalag. Ef við berum saman það sem lá fyrir þinginu og átti að keyra í gegnum þingið á nokkrum dögum án þess að þingmenn fengju að sjá samninginn, sem við munum öll gera sem komum að honum, hefur sem betur fer orðið gríðarlega mikil breyting. En ef menn ætla að reyna að túlka þetta með öðrum hætti eru þeir í það minnsta ekki að reyna að vinna að sátt í málinu eða sjá til þess að við séum að gæta hagsmuna okkar Íslendinga.