137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagnaði orðum hv. þingmanns þegar hann svaraði í andsvari að í hans huga hefði þetta frumvarp veruleg áhrif á samninginn. Það opinberaði veikleika við samningagerðina og hann staðfesti að þarna væri um verulegar breytingar á málinu að ræða. Þarna var ég mjög ánægð með hv. þingmann og heyrði að hann hafði sama skilning á þessu og ég. Þess vegna brá mér aðeins við þegar hann svaraði svo í andsvari við seinni þingmanninn að samningurinn standi eftir skrifaður.

Ég vil hnykkja á spurningunni sem varpað hefur verið til hv. þingmanns: Er þetta sami samningurinn sem stendur eftir skrifaður eða erum við með þessu frumvarpi og þeim breytingartillögum og þeirri takmörkuðu ríkisábyrgð sem við erum að staðfesta hér, að gera Bretum og Hollendingum gagntilboð. Í annan stað (Forseti hringir.) vil ég spyrja þingmanninn: Hvernig hefur þetta verið kynnt fyrir Bretum og Hollendingum? Er þetta sami samningurinn sem verið er að kynna eða er verið að tala um þetta sem gagntilboð?