137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má auðvitað túlka það þannig að þessir fyrirvarar taki klárlega á veikleikum samninganna. Það sagði ég í ræðu minni áðan. Allt það sem við töldum að betur hefði mátt fara var kortlagt, það sem við þyrftum að taka á, og síðan fórum við skipulega í að reyna að taka á þeim atriðum til að styrkja stöðu málsins í þágu þjóðarinnar með valdi Alþingis. Síðan geta menn rætt um hvort um sé að ræða gagntilboð eða ekki. Viðkomandi aðilar, þ.e. Hollendingar og Bretar, verða að fallast á að þessir fyrirvarar séu forsenda ríkisábyrgðarinnar. Og það verður þá hver og einn að meta hversu langt þeir ganga, hvort þeir blessa þetta sem slíkt eða hvort þeir óska eftir að ræða við fjármálaráðherra um málið. Ég tel að þeir eigi ekkert val, þeir verði að ganga að þessum samningum. Hann er unninn með sanngirni að leiðarljósi og alls staðar er notuð sú leið, það er Alþingi sem setur ríkisábyrgðina, það er alls staðar efnt til (Forseti hringir.) viðræðna ef menn vilja fara í breytingar. Og síðan er það Alþingi sem tekur ákvörðun um hvort ríkisábyrgðin heldur eða ekki og frá því getur enginn vikið í framhaldinu.