137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það á að líta fram á veginn. Að vísu finnst mér þá framtíðarsýn vanta býsna mikið í framhaldsnefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar því miður, en það er önnur saga.

Það sem ég vakti athygli á og er ástæðan fyrir því að ég fer hér aftur í tímann er það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir sjálfur í framhaldsnefndaráliti sínu, hann varpar ábyrgðinni á þá sem bera ábyrgð á þessari löggjöf og löggjöfin var sett 1999 að frumkvæði þáverandi viðskiptaráðherra, Finns Ingólfssonar, það er óumdeilt. Og ef það er eins og segir í nefndaráliti Sjálfstæðisflokksins að þeir sem bera ábyrgð á þeirri löggjöf eigi að bera hallann á þeirri réttaróvissu sem ríkir um gildi inntaks hennar, hljóta það að vera þeir sem samþykktu lögin. Þá koma breytingartillögur frá einhverjum öðrum þáverandi þingmönnum sem ekki hlutu brautargengi og skipta engu máli í því efni, það er löggjöfin sjálf sem skiptir máli. Það er það sem ég vek athygli á og spyr þingmanninn hvort ábyrgðin sé þá ekki örugglega hjá þeim sem stóðu að þessari lagasetningu.