137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég fer efnislega í það framhaldsnefndarálit sem 2. minni hluti hefur lagt fram vil ég þakka ágætt samstarf í fjárlaganefnd við alla þá aðila sem þar sitja. Ég vil taka fram að þó að ég sé ekki alveg sáttur hefur umræðan verið málefnaleg og aldrei leiðst út í persónulegan ágreining. Enn fremur vil ég þakka þeim riturum sem unnið hafa fyrir nefndina fyrir mikið og óeigingjarnt starf og tel nefndina vera afar vel setta að hafa það fólk innan borðs.

Það sem ég held að hafi komið fram í umræðunni áður en ég tók til máls er að enn á ný ríkir óvissa um það hvernig þeir flokkar sem standa að meiri hlutanum í þessu máli túlka þá fyrirvara sem hér eru lagðir fram. Ég bendi á ágreining sem er á milli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, hvort samningarnir standi enn þá óhreyfðir. Það er mitt mat að þó að við séum búin að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina standi samningarnir enn þá óhreyfðir og öll þau ósanngjörnu ákvæði sem þar eru innan borðs sem á engan hátt gæta hagsmuna Íslendinga.

Afstaða 2. minni hluta helgast í þessu máli af eftirfarandi röksemdum: Í fyrsta lagi leikur mikill vafi á hvort íslenska ríkinu beri yfir höfuð að greiða Icesave-skuldbindingarnar. Má í rauninni segja að engin haldbær rök hafi komið fram sem segja að það sé ríkisábyrgð á bak við innstæðutryggingarsjóð. Að því leyti fannst mér ósanngjörn sú umræða sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hóf hér rétt áðan og vísaði til þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hefðu innleitt tilskipunina árið 1999 eins og þeim bar að gera samkvæmt reglum EES. Er það skilningur framsóknarmanna, með stoð í álitum færustu sérfræðinga, að það eigi að túlka hana öðruvísi en hér er gert. Um það hefur meiri hlutinn sett fyrirvara þó að Framsóknarflokkurinn og sá sem hér stendur telji að ekki hafi nógu langt verið gengið í þá átt.

Í öðru lagi ríkir mikil óvissa um hversu háar fjárhæðir Íslendingum beri að borga yfir höfuð. Skal bent á að jafnvel þó að menn kæmust að því að Íslendingum bæri að greiða 20.887 þús. evrur samkvæmt tilskipuninni er með þessu frumvarpi í rauninni verið að samþykkja að Íslendingar borgi um 300–400 milljarða umfram þessar 20.887 þús. evrur. Það er hluti af þeirri gagnrýni sem 2. minni hluti hefur haldið uppi í þessari umræðu.

Í þriðja lagi hefur þeirri spurningu á engan hátt verið svarað hvort þeir fyrirvarar sem til stendur að bæta við lagafrumvarpið haldi þegar á reynir og hvort þeir gæti hagsmuna íslensks almennings nægilega vel. Það endurspeglaðist í þeirri stuttu umræðu sem átti sér stað fyrir ræðu mína. Annar minni hluti leggur mikla áherslu á að til umfjöllunar eru samningar sem eru óaðgengilegir fyrir Íslendinga. Taldi hann skynsamlegast að allt kapp væri lagt á að samningarnir yrðu lagðir til hliðar og að samið yrði upp á nýtt við Hollendinga og Breta. Því miður reyndist ekki meiri hluti fyrir þeirri skoðun á Alþingi og var frávísunartillaga 2. minni hluta felld í atkvæðagreiðslu um málið eftir 2. umr. Eftir að búið var að fella þann kost að vísa málinu frá vildi 2. minni hluti a.m.k. standa að því að gerðir yrðu fyrirvarar við ríkisábyrgðina sem gæta mundu hagsmuna þjóðarinnar til lengri tíma litið. Sú afstaða er byggð á því sjónarmiði að fyrirvararnir séu skýrir og að hafið sé yfir vafa hvort þeir muni halda. Í því ljósi lagði 2. minni hluti fram breytingartillögur sínar og um tíma var meiri hluti á Alþingi fyrir því að þeir yrðu samþykktir. Stóðu einungis þingmenn Samfylkingarinnar í veginum og hluti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Er einboðið að ef þær breytingartillögur yrðu samþykktar væri hagsmunum almennings enn betur borgið en reynt er að gera með fyrirvörum meiri hlutans. Eftir að frávísunartillagan hafði verið felld ákvað 2. minni hluti að draga breytingartillögur sínar til 3. umræðu með þá von í brjósti að þær fengju sanngjarna meðferð í fjárlaganefnd Alþingis. Því miður varð ekki sú raunin. Þrátt fyrir tilburði í rétta átt telur 2. minni hluti enn ekki nægilega langt gengið í breytingartillögum meiri hlutans og telur að breytingartillögur þær sem hann lagði fram hafi ekki fengið fullnægjandi umfjöllun í nefndinni.

Frá því að málið var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur 2. minni hluti háð harða barátta til að upplýsa hversu ósanngjarnir samningarnir eru fyrir hönd Íslands. Má segja að vegna þessarar baráttu séu nú gerðir fyrirvarar við ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum. Það er röng söguskýring að staðið hafi til af hálfu meiri hlutans, frá því að frumvarpið var lagt fram, að gerðir yrðu fyrirvarar við það. Það þarf ekki annað en að rifja upp þær umræður sem fóru fram við 1. umr. þessa máls og ummæli, þar á meðal varaformanns fjárlaganefndar, þess efnis að mönnum væri nær að samþykkja samningana óbreytta og hætta þessari vitleysu, orð hans voru eitthvað á þá leið.

Annar minni hluti lýsir ánægju með þann árangur að til skuli standa að setja fyrirvara og bendir enn á ný á að staðið hafi til að samþykkja samningana óbreytta, jafnvel óséða, svo undarlega sem það hljómar. Skal tekið undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að löggjafarvaldið hefur borið sigur úr býtum gagnvart framkvæmdarvaldinu að þessu leyti. Engu að síður verður að benda á þá staðreynd að Alþingi hefur sett niður í meðförum málsins. Gögnum hefur verið leynt, umræðan hefur verið afvegaleidd og beiðnum um aðkomu sérfræðinga sem og framlagningu gagna hefur einfaldlega verið hafnað. Má segja að skýr stefna annars ríkisstjórnarflokksins og hluta hins, að samþykkja samningana óbreytta, hafi ráðið miklu þar um. Að mati 2. minni hluta er þetta til marks um að ekkert hefur unnist í tíð núverandi ríkisstjórnar við að auka virðingu þingsins. Þvert á móti liggur það fyrir eftir 2. umr. málsins að hún hefur minnkað töluvert.

Annar minni hluti lagði fram breytingartillögu þess efnis að ekki yrði troðið á þeim sjálfsagða fullveldisrétti sjálfstæðrar þjóðar að fá skorið úr ágreiningsmálum sínum fyrir óháðum dómstóli eða þar til bærum úrlausnaraðila. Lagði hann til að áréttað yrði að sá réttur yrði mun víðtækari en kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans og um leið yrði gert mun líklegra að Íslendingar fengju notið þess ef það reynist rétt að ekki ríkisábyrgð sé á bak við innstæðukerfi Evrópusambandsins. Með því vildi 2. minni hluti ekki aðeins gera fyrirvarann skýrari heldur jafnframt auka líkur þess að Ísland yrði ekki eitt látið bera ábyrgð á þeim göllum sem eru á evrópska innstæðutryggingarkerfinu.

Annar minni hluti harmar að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki séð sérstaka ástæðu til að fjalla um málið á milli 2. og 3. umræðu, breytingartillögu sem eingöngu er til þess fallin að styrkja réttarstöðu Íslands og um leið að gæta betur að hag almennings.

Varðandi útgreiðslur á kröfum úr þrotabúi Landsbankans lagði 2. minni hluti í fyrsta lagi fram breytingartillögu þess efnis að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta léti reyna á það fyrir slita- og skiptastjórn þrotabús Landsbankans hvort kröfur hans gengju við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu og hagaði kröfulýsingunni þannig að reynt gæti á þennan rétt með málskoti til héraðsdóms eða Hæstaréttar. Annar minni hluti telur nauðsynlegt að það komi skýrt fram í lagafrumvarpinu þar sem rétturinn til að höfða dómsmál stofnast ekki að þessari aðgerð undangenginni.

Í annan stað telur 2. minni hluti afar ósanngjarnt að ef dómstólar úrskurða íslenska innstæðutryggingarsjóðnum í hag fái Íslendingar ekki notið þess beint heldur skuli einungis viðræður hefjast á ný við Breta og Hollendinga, eins og meiri hlutinn leggur til. Annar minni hluti tekur fram að Ragnar H. Hall hrl., sem hvað harðast hefur gengið fram um að þetta ákvæði verði sett, benti sjálfur á á fundi fjárlaganefndar milli 2. og 3. umræðu að eðlilegra hefði verið að hafa fyrirvara með þeim hætti sem 2. minni hluti lagði til. Er með eindæmum furðulegt hvers vegna þessar tillögur hafa ekki náð fram að ganga þar sem verið er að setja fyrirvara eftir ábendingum hans.

Varðandi þá orðalagsbreytingu sem meiri hlutinn leggur til gerir 2. minni hluti ekki athugasemd við hana en bendir á að hún staðfesti ábendingar 2. minni hluta um óskýrleika þeirra breytingartillagna sem meiri hlutinn lagði til við 2. umræðu.

Í ræðu sinni kom hv. þm. Kristján Þór Júlíusson inn á þá staðreynd að Íslendingar fái ekki notið þess í frumvarpinu ef reynt verður á hryðjuverkalögin svokölluðu fyrir breskum dómstólum. Hann benti líka á að ákvæði séu í samningnum sem kveði á um skuldajöfnunarrétt og að þau ákvæði skerði mjög hagsmuni Íslendinga. Þess vegna má velta fyrir sér að ef hluti þeirra sem standa að áliti meiri hlutans hefur þessa skoðun af hverju ekki var lagt meira kapp á að kanna hvort ábendingar Þorsteins Einarssonar hrl. og Þórhalls Þorvaldssonar hdl. hafi átt við rök að styðjast. Það eru engar tillögur um fyrirvara í samningunum þannig að við fáum notið þessa sjálfsagða réttar.

Annar minni hluti bendir á að Landsbanki Íslands hefur hugsanlega orðið fyrir tjóni sem skiptir tugum ef ekki hundruðum milljarða króna vegna beitingar breska ríkisins á svonefndum hryðjuverkalögum. Þorsteinn og Þórhallur bentu á að enn sé hægt að fá tjón metið með réttum hætti bæði samkvæmt íslenskum og enskum rétti. Hægt væri að lýsa einhliða yfir skuldajöfnuði í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, og þyrfti ekki einu sinni málsókn til. Þegar íslensk stjórnvöld létu hjá líða að höfða mál á hendur Bretum 7. janúar féll rétturinn til að sækja um skaðabætur ekki niður. Annar minni hluti er sammála þeim um að kanna hefði þurft að þessi mál miklu betur og bendir á að ef þetta er rétt hefðu verið miklu meiri líkur á að eignir þrotabús Landsbanka Íslands hefðu dugað fyrir Icesave-skuldinni. Jafnvel þyrfti ekki að reyna á ríkisábyrgðina að lokinni skuldajöfnun ef endurheimtuáætlun meiri hlutans mundi ganga eftir. Um svo mikla hagsmuni er að ræða, en meiri hlutinn — allir flokkar — hafnaði því að það yrði kannað nánar.

Við 2. umr. benti 2. minni hluti á að enn ríki mikil óvissa um það hvenær ríkisábyrgðin muni falla niður. Það er eitt að við leggjum á komandi kynslóðir að þurfa að greiða fyrir skuldir annarra, skuldir einkafyrirtækis, en það er með öllu ólíðandi að sú ábyrgð gildi lengur en til ársins 2024. Má segja að meiri hlutinn hafi á vissan hátt tekið undir þá tillögu með því að setja inn breytingartillögur um að ríkisábyrgðin falli úr gildi 5. júní 2024, en það skal áréttað að það er gert með fyrirvörum. Í stað þess að kveða skýrt á um það er niðurfelling ríkisábyrgðarinnar gerð með fyrirvörum. Annar minni hluti telur að í því felist mikil blekking að gefa í skyn að ríkisábyrgðin falli niður 5. júní 2024 þar sem eftirfarandi kemur skýrt fram í breytingartillögu meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.“

Má af þessu orðalagi draga þá skýru ályktun að ríkisábyrgðin falli í raun ekki niður heldur verði að semja á ný við Hollendinga og Breta. Þessi blekking er af sama meiði og meiri hlutinn setti í nefndarálit, þ.e. ef skuldahlutfall íslenska ríkisins eða opinberra aðila fer yfir sömu viðmið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti, 250%, 240%, hefur það eitthvert gildi. Það hefur gildi þó að það standi í áliti meiri hlutans. Það þarf að koma skýrt fram í frumvarpinu sjálfu til þess að það gildi. Þannig hljóða öll lögskýringargögn, hinn skrifaði texti gildir fyrst og fremst.

Það ríkir enn á ný mikil óvissa um gildi fyrirvaranna. Hér hefur verið rakið, og kannski óþarfi að rekja nánar, að í grein 13.1 í breska samningnum og grein 12.1 í hollenska samningnum kemur skýrt fram að aðeins sé heimilt að gera breytingar á samningunum, bæta við þá eða falla frá þeim, með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila. Svipuð sjónarmið koma fram í grein 6.5 í breska samningnum.

Þingmenn lögðu mismunandi skilning í hvort um nýtt tilboð væri að ræða með setningu fyrirvaranna eða hvort þeir rúmuðust innan skilmálanna. Hér er um grundvallaratriði að ræða og umræður meiri hlutans, sjálfstæðismanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna áðan sýna að enn á ný ríkir sama óvissan og meiri hlutinn, sem stærir sig af því að vera samstiga í þessu máli, er það kannski ekki þegar virkilega reynir á.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hér hefur komið fram og með vísan í framhaldsálit 2. minni hluta er eitt staðreynd: Óvissunni hefur síður en svo verið eytt. Þvert á móti hefur hún aukist í mörgum mikilvægustu þáttum málsins. Annar minni hluti gagnrýnir hve mikla áherslu meiri hluti nefndarinnar hefur lagt á að afgreiða málið úr nefndinni þó svo að mikilvægum spurningum sé enn ósvarað og að nefndin hafi ekki gætt þess að fullrannsaka atriði sem varða brýna þjóðarhagsmuni. Annar minni hluti gagnrýnir einnig að ekki hafi verið komið á fót faglegu rannsóknarteymi sérfræðinga sem falið hafi verið að kanna alla þætti málsins á hverju sérsviði fyrir sig. Með því hefði mátt koma að ýmsum þeim ábendingum sem nefndinni hafa borist fyrr í umræðunni. Það er algjörlega óviðunandi að það sé háð tilviljunum hvort einstaklingar úti í bæ hafi tíma til að skoða einstaka þætti þessa flókna máls í sjálfboðavinnu og skrifa um það viðamiklar greinar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Má nefna, að öðru ólöstuðu, þá miklu vinnu sem sérfræðingar á vegum Indefence-hópsins hafa lagt fram og þau mörgu álitaefni sú vinna hefur skilað á borð nefndarinnar.

Hér skal skýrt tekið fram að að mati 2. minni hluta er óviðeigandi að tefla fram þeim rökum að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til að borga Icesave-skuldbindingarnar án þess að látið verði reyna á lagalega skyldu þess því að í reynd eru það afkomendur okkar sem munu að verulegu leyti burðast með afleiðingar hennar í formi verri lífskjara. Getur 2. minni hluti á engan hátt fallist á að komandi kynslóðum sé gert að bera ábyrgð á mistökum einkafyrirtækis, íslenskra ráðamanna og galla í regluverki Evrópusambandsins. Í því ljósi leggur 2. minni hluti áherslu á að umræðan um Icesave falli ekki niður heldur verði ríkisstjórninni, stofnunum, skilanefndum og þeim aðilum sem fara með þessa miklu hagsmuni veitt strangt aðhald þannig að tryggt verði að hagsmunir þjóðarinnar verði aldrei fyrir borð bornir.

Meiri hlutinn hefur gert tvær breytingartillögur. Önnur barst frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Þar er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein, sem meiri hlutinn hefur gert, þess efnis að skilyrði fyrir því að ríkisábyrgðin sé veitt samkvæmt lögum sé að lánveitendur hafi samþykkt að skuldbindingar tryggingarsjóðsins séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgðin. Í þeim tilvikum þar sem Alþingi getur takmarkað ríkisábyrgðina á grundvelli fyrirvaranna yrði greiðsluskylda tryggingarsjóðsins takmörkuð með sama hætti. Annar minni hluti telur eðlilegt að slíkt ákvæði sé sett inn. Jafnframt skal bent á að þótt eðlilegt sé að setja slíkt ákvæði í lagafrumvarp hafa þessir fyrirvarar ekki verið lesnir gaumgæfilega yfir af íslenskum og erlendum sérfræðingum. Gætu því enn leynst fjölmörg önnur ákvæði sem þarf að breyta og skýra. Telur 2. minni hlutinn það til marks um að enn eru fjölmörg atriði óljós og ókönnuð.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að nýtt ákvæði komi inn í frumvarpið þar sem sett er það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir fyrirvarar ríkisábyrgðarinnar samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Annar minni hluti telur eðlilegt að ákvæðið sé sett í ljósi þeirrar miklu óvissu sem fyrirvararnir skapa en óneitanlega vaknar upp sú spurning: Hefði þá ekki verið eðlilegra að setja samningana til hliðar og semja upp á nýtt við Hollendinga og Breta? Það eru fjölmörg ósanngjörn ákvæði enn í Icesave-samningunum sem ganga í berhögg við hagsmuni Íslendinga og þá hefði verið hægt að láta reyna á hvort Hollendingar og Bretar hefðu ekki a.m.k. fallist á að Íslendingar, Hollendingar og Bretar hefðu jafna stöðu. Það er sá réttur sem Íslendingar eiga sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Niðurstaða 2. minni hluta er að þegar litið er á málið í heild sinni er ljóst að hagsmunum Íslendinga hefði verið betur borgið ef staðið hefði verið á þeim rétti sem þeir eiga að njóta sem fullvalda þjóð. Það hefði verið skynsamlegra að leggja samningana til hliðar og freista þess að ná fram sanngjörnum samningum við Breta og Hollendinga þar sem réttarstaða Íslands væri ekki fyrir borð borin. Sú tillaga var hins vegar felld af meiri hluta Alþingis.

Að þeirri tillögu felldri og að því gefnu — þó að ég beri enn þá von í brjósti um að fallist verði á breytingartillögur 2. minni hluta — að ekki verði tekið tillit til þeirra liggur fyrir að hagsmunum þjóðarinnar er ekki nægilega vel borgið með samþykkt þessa frumvarps og leggur 2. minni hluti því til að frumvarpið verði fellt. Menn eiga að hafa í huga að Icesave-samningarnir eru og verða algjörlega óaðgengilegir fyrir íslenska þjóð. Ég vonast enn til að meiri hlutinn samþykki ekki að færa ábyrgðina yfir á almenning, á komandi kynslóðir, á börn sem ekkert hafa sér til saka unnið en þurfa að þola mikinn niðurskurð, verri lífskjör á komandi árum eingöngu vegna þess að stór hluti þess hagvaxtar, sem vonandi verður á Íslandi, mun fara í að borga Icesave-skuldirnar. Þá erum við m.a. að tala um þá 24 milljarða (Forseti hringir.) — hvorki meira né minna — sem Íslendingar og meiri hlutinn ætla að fallast á að greiddir verði umfram skyldu.