137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við erum hér komin með í 3. og síðustu umræðu það mál sem hefur tekið hvað mestan tíma í störfum þingsins nú í sumar og fjallar um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hjá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hefur gert ítarlega grein fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og þeim breytingartillögum sem fluttar eru sameiginlega af tíu af ellefu þingmönnum í fjárlaganefnd. Ég ætla ekki að fara í þær því að þeim hafa verið gerð skil hér nú þegar.

Mig langar að fjalla aðeins um þetta mál almennum orðum og vil byrja á því að segja að ég tel að sú vinna sem fram hefur farið á vettvangi fjárlaganefndar frá því að málið kom þar inn og alveg til þessa dags hafi verið til fyrirmyndar. Ég tel að fjárlaganefndin hafi öll lagt sig fram um að gera þetta mál þannig úr garði að það tryggi sem allra best hagsmuni Íslands að teknu tilliti til allra aðstæðna málsins. Vitaskuld er enginn ánægður með að sitja uppi með þær skuldbindingar sem fylgja þessum Icesave-samningi og það gerir það enginn að gamni sínu. Orsakirnar til þess verður að rekja til hruns efnahagslífsins, bankakerfisins í haust, það er orsök vandans, um það getur varla verið deilt. Síðan geta menn að sjálfsögðu haft ýmsar skoðanir á því hvort sú lausn sem hér er verið að leggja fram í formi samninga og frumvarps sé nægilega góð og ég virði skoðanir manna á því að þær eru misjafnar og um það getur verið tekist.

Ég vil leyfa mér að þakka samstarfsmönnum mínum í fjárlaganefnd öllum fyrir prýðilega gott samstarf og gott innlegg í þá umræðu og þá vinnu og þær breytingartillögur og þau álit sem liggja fyrir í þessu máli. Ég vil þakka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þeim Kristjáni Þór Júlíussyni, Ásbirni Óttarssyni og Ólöfu Nordal og nú síðast Einari K. Guðfinnssyni, sem hljóp í skarðið fyrir Ólöfu Nordal, og þingmanni Borgarahreyfingarinnar, hv. þm. Þór Saari, fyrir sérstaklega gott samstarf við að betrumbæta það frumvarp sem hér er með sameiginlegum breytingartillögum sem fluttar voru við 2. umr. og eins þær sem fluttar eru hér við 3. umr. Ég vil líka þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, fyrir gott samstarf og verð að segja það honum til hróss að hann hefur staðið sig ákaflega vel og sýnt mikla elju við að halda fram málstað síns flokks og sínum í þessu máli enda þótt leiðir okkar málefnalega hafi ekki legið saman í öllum atriðum málsins. Hann á að sjálfsögðu hrós skilið fyrir það.

Mér hefur að vísu, og mér þykir það miður, fundist of mikið bera á því á stundum í umræðum um þetta mál hér á þingi og líka úti í samfélaginu að okkur sem viljum styðja það í þeim búningi sem það er núna sé borið á brýn að hafa ekki ætlað að vinna þjóðinni gagn, að hafa ekki viljað þjóðinni hið besta í þessu máli. Og að það sé jafnvel gengið svo langt að halda því fram að við séum beinlínis að skaða hagsmuni Íslands. Það geri það enginn alþingismaður með vilja, ekki nokkur. Ég er sannfærður um að þegar allt málið er skoðað heildstætt, svo að ég haldi því til haga, að mér þykir upphaf þessa máls allt vera hið versta. Ég tel að þegar allt er skoðað og þær skuldbindingar sem við berum samkvæmt regluverkinu sem hér liggur að baki, þegar horft er til þeirra hagsmuna sem við sannarlega eigum í alþjóðlegu samstarfi, í efnahagslegu og viðskiptalegu samstarfi, ekki síst innan Evrópu og þeim hagsmunum sem við höfum af góðu samstarfi við félaga okkar á Norðurlöndum sem hafa komið eða viljað koma Íslendingum til aðstoðar við að byggja upp slíkt efnahags- og atvinnulíf, að það sé heillavænlegast fyrir okkur að ganga til samninga við Breta og Hollendinga um uppgjör þessara skuldbindinga.

Ég tek undir að það eru að sjálfsögðu margar spurningar um hinar lagalegu forsendur í þessu máli. Það er mjög miður að ekki hafi tekist að fá úr því skorið enn sem komið er og þess vegna tel ég að það sé málinu mjög til bóta hvernig um það er búið í þeim breytingartillögum sem voru samþykktar hér við 2. umr.

Ég vil segja að ég tel að fulltrúar allra flokka sem starfað hafa að þessu máli hér á Alþingi hafi lagt sig fram. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra sem standa að þeim breytingartillögum sem liggja fyrir núna fyrir gott samstarf og fyrir heiðarleika og hreinskilni í þeim samskiptum sem við höfum átt um þetta mál. Það er vissulega svo að við höfum ekki verið sammála um alla hluti en okkur hefur tekist að vinna málin þannig að það hefur tekið á sig miklu betri búning og er það mjög vel.

Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins er býsna mikið farið yfir vinnuna í aðdraganda þessa máls, þ.e. samningavinnuna og það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum og þar er að finna mjög mikla gagnrýni á framgöngu ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki tíma, virðulegur forseti, til að fara ítarlega í þau mál öll en ég tel að þar taki menn býsna stórt og mikið upp í sig á köflum og að gagnrýnin á framgöngu ríkisstjórnarinnar sé ekki réttmæt af hálfu Sjálfstæðisflokksins í þessu efni. Ég skil mætavel að stjórnarandstöðuflokkur telji mikilvægt við þessar aðstæður að halda þeim sjónarmiðum fram sem þar koma fram. En á sama hátt væri freistandi fyrir okkur sem vorum í stjórnarandstöðu þegar efnahagshrunið dundi yfir, þegar bankarnir voru einkavæddir, þegar útrásin var sem mest mærð, þegar hér var allt yfirkeyrt í efnahags- og atvinnulífinu með mikilli þenslu, með neyslu sem var að miklu leyti tekin að láni, að eyða miklu púðri í þessari umræðu til þess að rekja það allt og benda á hvernig undirstöðurnar voru raunverulega þegar fjármálakreppan reið yfir heiminn og að hún skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum vegna þess að stoðirnar voru feysknar.

Ég tel samt, frú forseti, ekki málinu til framdráttar að fara yfir þá sögu alla hér og nú. Hún verður skrifuð síðar, hún verður dregin fram í dagsljósið þegar rannsóknarvinnunni verður lokið sem nú stendur yfir og kemur til umfjöllunar á Alþingi í haust eða í byrjun vetrar. Það verður að sjálfsögðu gert og það verða aðrir en bara þingmenn sem taka þátt í þeirri umræðu. Þess vegna verð ég að segja algjörlega heiðarlega og hreinskilið við félaga mína í Sjálfstæðisflokknum að mér sárnar pínulítið sú framsetning sem kemur fram í nefndaráliti þeirra á aðdragandann að þessu máli, þó að ég skilji að það kunni að vera pólitísk nauðsyn að halda slíkum hlutum fram, vegna þess að saga þessa máls er einfaldlega miklu lengri en sem nemur því sem er rakið í framhaldsnefndaráliti 1. minni hluta. Sem sagt, frú forseti, ég ætla ekki að gera athugasemdir við það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram eða rökstyður afstöðu sína í þessu máli og hvaða atriði hann dregur fram sérstaklega, það er auðvitað á hans ábyrgð og hans val að gera það með þeim hætti sem hann vill. Og eins og ég segi, við í stjórnarflokkunum hefðum getað farið lengra aftur í tímann og rakið söguna og dregið fram þætti sem við teljum að séu þess valdandi að við stöndum í þeim sporum sem við gerum í dag en ég tel að það þjóni ekki tilgangi þessa máls núna.

Ég er þakklátur fyrir það góða samstarf sem við höfum átt í fjárlaganefnd og öðrum nefndum um að finna þessu máli farsælan farveg fyrir íslenska þjóð. Ég vil sérstaklega við þessa umræðu halda því fram að það eiga allir þakkir skildar fyrir að hafa lagt mikið á sig, mikla vinnu, mikinn tíma og miklar og góðar hugmyndir um það hvernig við gætum greitt úr þessu máli þannig að endirinn á því verði farsæll fyrir Íslendinga.

Ég er þeirrar skoðunar, þvert á það sem ýmsir aðrir hafa haldið fram í þessari umræðu, m.a. eins og kemur fram í nefndaráliti Framsóknarflokksins, að það séu ekki margir góðir valkostir aðrir fyrir okkur en sá að ganga til samninga við Breta og Hollendinga um þessi mál og búa þannig um hnútana að við stöndum sem best vörð um íslenska hagsmuni, um efnahagslega hagsmuni, um lagalegan rétt okkar o.s.frv. Ég tel að það hafi verið gert með breytingartillögunum sem fyrir liggja. Ég tel sem sagt að ef við hefðum valið þann kost að hafna þessum samningi alfarið hefði stefnt hér í mikla óvissu og við hefðum ekki hugmynd um hvernig því máli mundi reiða af. Hér er mikið talað um að efna til nýrra samningaviðræðna við Breta og Hollendinga, við höfum ekki hugmynd um hvort staða okkar yrði betri við þær aðstæður. Raunar má alveg eins halda því fram að hún yrði lakari fyrir vikið þótt erfitt sé að spá, sérstaklega um framtíðina, eins og sagt er. Það sé rétt sem fram kom í vinnu fjárlaganefndar, í umsögn frá Siðfræðistofnun hygg ég, að það eina sem væri öruggt í þessu máli væri óvissan. Hún blífur, hún verður áfram til staðar.

Það er óvíst hvernig Bretar og Hollendingar bregðast við þeirri afgreiðslu Alþingis að setja fyrirvara við þessa ríkisábyrgð, það er óvíst. Það er gagnrýnt hér að ekki hafi verið aflað upplýsinga um það til hlítar. Ég tel að það hefði verið óeðlilegt, Alþingi er að fjalla um þetta mál á sínum forsendum og ætlar sér að setja íslensk lög um þá ríkisábyrgð sem gildir hér. Við eigum ekki að óska eftir viðbrögðum fyrir fram frá erlendum aðilum um það hvernig þeir hyggist þá bregðast við þessum lögum. Ég er þeirrar skoðunar að ef samningsaðilar okkar vilja ekki fallast á þessa skilmála, þessi skilyrði, tilkynna þeir íslenskum stjórnvöldum um það og þá verður ekki neinn samningur úr þessu öllu saman, þá verður ekki ríkisábyrgðin veitt og þá verður ekki þessi samningur. Þá er komin upp ný staða sem íslensk stjórnvöld og Alþingi þurfa að horfast í augu við og takast á við ef það gerist.

Ég ber hins vegar þá von í brjósti að viðsemjendur okkar fallist á þau skilyrði sem við erum að leggja til að verði sett. Ég tel að þau séu málefnaleg, þau séu sanngjörn og þau séu nauðsynleg til að tryggja hagsmuni okkar. Þau breyta auðvitað innihaldi samningsins heilmikið, það er rétt, og ég er ekki sammála því sem sumir hafa haldið fram, að samningurinn verði óbreyttur í sjálfu sér. Þetta eru efnislegir þættir sem breyta umgerð þessa máls, en þetta er ekki að mínu viti gagntilboð til Breta og Hollendinga vegna þess að Alþingi er ekki í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga, það er framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið gæti gert Bretum og Hollendingum gagntilboð, það gerir Alþingi ekki. Alþingi setur lög um ríkisábyrgðina og þess vegna held ég að þeir sem fara hvað yst í túlkunum sínum í þessu efni á báða bóga hafi rangt fyrir sér og við séum sennilega einhvers staðar þarna miðja vegu á milli eins og oft vill nú verða.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál frekar. Við höfum fjallað um það ítarlega hér við 2. umr., við höfum fjallað um það ítarlega á vettvangi fjárlaganefndar og gerð hefur verið góð grein fyrir breytingartillögunum og áliti meiri hlutans af formanni fjárlaganefndar. Ég vil ítreka þakkir mínar til allra fjárlaganefndarmanna sem ég hef áður nafngreint fyrir gott samstarf. Ég vil þakka starfsfólki fjárlaganefndar fyrir mikla vinnu og mikla aðstoð og öllu því starfsfólki sem komið hefur að þessu máli í ráðuneytum, m.a. sérfræðingum og fagfólki sem hafa veitt okkur ráðgjöf og þeim sem unnið hafa að þessu máli fyrir Íslands hönd, samninganefnd Íslands, sem ég tel að hafi orðið fyrir ómaklegri gagnrýni, en hún vann sitt verk við afar erfiðar aðstæður og út frá afar þröngri stöðu. Að sjálfsögðu er það svo í þessu máli eins og öllu að menn vilja alltaf reyna að gera betur og búa þannig um hnútana að hagsmunum Íslands sé vel borgið. Það tel ég að hafi verið leiðarljós okkar allra í þessari vinnu, að gera málið betra, tryggja betur íslenska hagsmuni. Þeir eru mjög miklir og ríkir í þessu máli og við viljum öll horfa fram á veginn, við viljum öll stuðla að því að við getum byggt upp atvinnu- og efnahagslíf okkar til framtíðar á traustum grunni. Ég tel að gott samstarf okkar við nágrannaþjóðir, sem við eigum í miklum viðskiptum og samskiptum við, sé mikilvægur liður í því efni. Þess vegna mæli ég með því að það frumvarp sem hér liggur fyrir og með þeim breytingartillögum sem því fylgja verði samþykkt.