137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé skrifað býsna vel í þá breytingartillögu sem við fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar stöndum að við þessa umræðu þar sem segir að það sé skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem settir eru við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og þau fallist á þá. Þetta hlýtur að þýða það að áður en fjármálaráðherra beitir þeirri heimild sem honum er ætlað að fá með þessari lagasetningu verður hann að ganga úr skugga um að samningsaðilarnir hafi fallist á þessa fyrirvara. Hvernig það er nákvæmlega í framkvæmd getur auðvitað verið þannig að þeir fallist einfaldlega á þá skriflega, með yfirlýsingu, viðauka eða einhverjum þeim hætti sem verður að teljast fullnægjandi þannig að það liggi ljóst fyrir að þeir hafi fallist á þá fyrirvara sem hér eru settir. Ég tel í sjálfu sér aukaatriði nákvæmlega hvernig það er gert og hvernig það gengur fyrir sig.

Aðalatriðið í þessu er að mínu viti það sem stendur í breytingartillögunni, að fjármálaráðherra megi ekki veita þessa heimild samkvæmt lögunum, ef þau verða samþykkt, öðruvísi en viðsemjendurnir hafi fallist á þá fyrirvara sem settir eru í lögin. Það verður hann að gera samkvæmt þessu á fullnægjandi hátt og ég tel einboðið að það verði gert með einhvers konar samkomulagi, yfirlýsingu, viðauka eða einhverju þvílíku sem telst vera lögformlegt.