137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:42]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar, eða meðsvar frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni. Áður en ég svara spurningu hans langar mig til að tjá forseta þakkir mínar fyrir áminningu um að gæta orða minna. Ég hef unnið við það og haft af því lifibrauð síðustu 40 ár að gæta orða minna. Íslensk tunga hefur verið atvinnutæki mitt og ég þakka allar ábendingar varðandi notkun tungumálsins og mun hér eftir sem hingað til reyna að gæta þessa máls sem mér var gefið og vanda mig við meðferð þess.

Varðandi spurningu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar um hvað mér finnist um þá margrómuðu samstöðu sem menn telja sig hafa náð í þinginu hef ég svo sem ekki mikið að segja um hana utan sjálfsagða hluti. Samstaða er í sjálfu sér af hinu góða svo lengi sem sú samstaða er um réttan og góðan málstað. Ég gef hins vegar lítið fyrir samstöðu um að láta í minni pokann fyrir kúgunum og ofbeldi og samstöðu um að reyna að gera það skásta úr vondu máli í stað þess að berjast fyrir því að taka málið fyrir upp á nýtt og leiða það fram til sigurs.