137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs Íslands til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Icesave-samningarnir bera þess glöggt merki að íslenska samninganefndin hefur verið ofurliði borin af hálfu Hollendinga og Breta þvert á það sem hin umsömdu viðmið gáfu fyrirheit um. Á því ber ríkisstjórnin alla ábyrgð. Órói innan lands, alþjóðlegur þrýstingur, flækjustig málsins og gríðarstórir hagsmunir áttu að gefa ríkisstjórninni tilefni til að vanda betur til samningagerðarinnar til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu.

Hæstv. fjármálaráðherra kaus að láta pólitíska samherja leiða samningaviðræðurnar fyrir Íslands hönd í stað þess að láta einhvern með viðamikla þekkingu á alþjóðlegri samningagerð gegna því starfi. Staðfesting þess að niðurstaða viðræðnanna hafi verið óásættanleg birtist í ósamkomulagi innan ríkisstjórnarinnar áður en samningarnir voru undirritaðir og mikilli tregðu við að kynna samningana með viðhlítandi hætti fyrir utanríkismálanefnd og þingflokkum. Þessa sást einnig stað í ófullnægjandi aðgangi sem stjórnvöld settu alþingismönnum að gögnum málsins við upphaf þinglegrar meðferðar.

Þær breytingar á frumvarpinu sem unnar hafa verið í fjárlaganefnd varpa ljósi á hversu forkastanleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið í þessu máli. Í meðförum fjárlaganefndar hefur frumvarp ríkisstjórnarinnar tekið gríðarlegum breytingum og að því gefnu að breytingartillögur innan nefndarinnar hljóti staðfestingu má segja við endanlega afgreiðslu Alþingis byggi afgreiðsla málsins á allt öðrum forsendum en þeim sem ríkisstjórnin lagði upp með. Þær voru að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð án nokkurra takmarkana á þeim skuldbindingum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hafði gert með staðfestingu fjármálaráðuneytisins við bresk og hollensk stjórnvöld. Allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í aðdraganda framlagningar frumvarpsins þann 2. júlí ber vott um fljótræði og litla sem enga yfirsýn yfir innihald þeirra samninga sem ríkisstjórnin staðfesti að kvöldi 5. júní.

Þannig hélt hæstv. forsætisráðherra því fram í fréttum þennan sama dag að eignir Landsbanka Íslands mundu standa undir a.m.k. 95% þeirra skulda sem á Ísland kynnu að falla vegna Icesave-reikninga bankans. Tveimur dögum áður sagði hæstv. fjármálaráðherra að það væru algerar sögusagnir að til stæði að taka eitt risavaxið lán með himinháum vöxtum og í sjónmáli væri mun hagstæðari samningur en áður hefði verið rætt um. Einnig gaf hann í skyn að samninganefndin undir forustu Svavars Gestssonar væri að ná glæsilegri niðurstöðu innan skamms. Þau orð voru síðan dregin að nokkru leyti til baka.

Einnig lét formaður samninganefndarinnar hafa það eftir sér í fjölmiðlum að hann hefði ekki nennt að hafa málið lengur hangandi yfir sér. Þau ummæli sem vitnað er til eru afar óviðeigandi, svo ekki sé meira sagt. Því miður eru framangreindar tilvitnanir ásamt öðrum þeim upplýsingum sem fyrir liggja í gögnum málsins í fjárlaganefnd óræk staðfesting þess að kastað hefur verið til höndunum við framlagningu frumvarpsins þar sem farið var fram á ríkisábyrgðina. Það liggur fyrir í ljósi þess sem síðan hefur verið upplýst að innan stjórnarflokkanna hafi verið takmörkuð vitneskja um þær gríðarlegu skuldbindingar sem frumvarp ríkisstjórnarinnar fólu í sér. Enda kom á daginn við vinnu fjárlaganefndar að gögn málsins voru gríðarleg að vöxtum og yfirferð þeirra krafðist mikillar vinnu, jafnt alþingismanna, sérfræðinga sem og almennra borgara landsins. Sífellt koma fram nýjar upplýsingar sem nauðsynlegt reyndist að vinna betur úr.

Frú forseti. Eins og áður segir liggja fyrir viðamiklar tillögur til breytinga á því frumvarpi sem fjármálaráðherra mælti fyrir á Alþingi 2. júlí sl. Í stað þeirra galopnu og fáorðu heimilda sem frumvarpið mælti fyrir um hafa verið settir inn í það gildir fyrirvarar til að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Þessum fyrirvörum er ætlað að styrkja rétt Íslendinga í samskiptum við Breta og Hollendinga og sníða af ýmsar og verstu afleiðingar þeirra samninga sem gerðir voru í umboði ríkisstjórnarinnar við þessar þjóðir. Breytingarnar munu m.a. stemma stigu við íþyngjandi fjárhagslegum afleiðingum samninganna, treysta aðkomu Alþingis að málinu og setja sólarlagsákvæði á ríkisábyrgðina vegna láns til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Það er því ljóst að Alþingi fjallar nú um gjörbreytt mál frá því sem fyrst var lagt fram. Í rauninni hefur ríkisstjórnin verið gerð afturreka með það mál sem hún lagði upp með. Í ljós hefur komið að ríkisstjórnin gekk til samninga við Hollendinga og Breta þar sem forsenda var ríkisábyrgð til handa Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta vitandi vits um að hvorki samningarnir né ríkisábyrgðin nyti stuðnings meiri hluta Alþingis eða allra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin gekk þannig frá skuldbindingum við aðrar þjóðir þrátt fyrir fulla vitneskju um að meiri hluti Alþingis væri þeim andsnúinn. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál líkt og umfjöllun Alþingis á vinnu fjárlaganefndar við frumvarpið ber vitni um. Eðlilegast hefði verið, líkt og bent var í nefndaráliti fulltrúa sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd við 2. umr. málsins, að ríkisstjórnin hefði gengið að nýju til samningaviðræðna við Breta og Hollendinga til að reyna til þrautar að ná samningum þar sem aðilar tækju meira mið af hagsmunum Íslands en fyrirliggjandi samningar gera. Því miður var ríkisstjórnin ófáanleg til þess. Það var við þessar aðstæður sem fjárlaganefnd gerði grundvallarbreytingar á málinu og lagaði það að vilja þingsins.

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir helstu breytingar fjárlaganefndar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

1. Brussel-viðmiðin. Lánasamningarnir verða túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið frá 14. nóvember, Brussel-viðmiðin, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að tekið sé sérstakt tillit til erfiðra og fordæmislausra aðstæðna á Íslandi. Kveðið var á um þetta í ályktun Alþingis frá 5. desember sl. en ljóst er af erindisbréfi samninganefndar ríkisstjórnarinnar um Icesave að verkefni hennar var ekki skilgreint í samræmi við þessa ályktun Alþingis. Er það vægast sagt mjög alvarlegt að hvorki erindisbréf samninganefndarinnar né niðurstaða samninganna skuli hafa verið í samræmi við vilja Alþingis.

2. Fullveldisákvæðið. Tryggt er nú að ekki verði hægt að gera aðför að eigum Íslands sem fullvalda ríkis. Í Icesave-samningunum eru ákvæði þar sem fallið er frá þessum friðhelgisrétti. Í þeim efnum var gengið miklu lengra en gerist og gengur í öðrum lánasamningum ríkisins. Þessu er snúið við í meðförum Alþingis.

3. Sett hefur verið inn nýtt ákvæði í frumvarpið sem tryggir með skýrum hætti, gagnstætt því sem var í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar, yfirráð yfir náttúruauðlindum landsins og jafnframt rétt íslenskra stjórnvalda til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhaldsins.

4. Efnahagsleg viðmið. Í upphaflegu frumvarpi lagði ríkisstjórnin til að Alþingi samþykkti að Íslendingar ábyrgðust án nokkurra takmarkana allar þær fjárhagslegu skuldbindingar sem af Icesave-samningunum leiddu. Þá fór fjármálaráðherra fram á ríkisábyrgð á gríðarlega háum greiðslum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til Breta og Hollendinga án þess að fyrir lægi hvaða áhrif það kynni að hafa á íslenskt þjóðfélag.

Í meðförum Alþingis hafa að forgöngu sjálfstæðismanna verið gerðar grundvallarbreytingar í þessu efni. Reistar eru stífar skorður til þess að tryggja að fjárhagsleg byrði af ríkisábyrgðinni verði innan viðráðanlegra marka. Því verður hún miðuð við tiltekna hámarksgreiðslu úr ríkissjóði. Verður ríkisábyrgðin aldrei meiri en sem nemur 6% af vexti landsframleiðslunnar. Ekkert slíkt hámark var í upphaflegu frumvarpi. Heimildin til ríkisábyrgðar var galopin og án tillits til fjárhagslegrar getu þjóðarbúsins til þess að standa undir greiðslunum.

5. Sett er inn sólarlagsákvæði á ríkisábyrgðina. Kveðið er á um að ríkisábyrgðin standi ekki lengur en til 5. júní 2024 án tillits til þess hvort fjárhæðin vegna Icesave hafi verið greidd að fullu. Alþingi eitt getur breytt þeirri ákvörðun. Engar slíkar takmarkanir var að finna í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

6. Ítrekað er að Ísland hafi ekki fallið frá rétti til málssóknar svo að úr því fáist skorið hvort Íslendingum beri að greiða lágmarkstryggingu vegna Icesave-innstæðnanna. Komi í ljós að slík ábyrgð sé ekki fyrir hendi verður til fyrirvari um greiðslur sem er háður því að viðræður fari fram á milli Íslands, Hollands og Bretlands um áhrifin á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Leiði viðræðurnar ekki til niðurstöðu er unnt að takmarka ríkisábyrgðina.

7. Í samningi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að greiðslur vegna eigna úr búi Landsbankans gengju að jöfnu til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi og í Bretlandi og Hollandi. Þessu hefur nú verið breytt til samræmis við íslensk lög. Þannig hafa verið leiðrétt einhver afdrifaríkustu mistök íslenskra stjórnvalda við samningagerðina sem fyrirsjáanlega hefðu getað kostað íslenska skattgreiðendur mörg hundruð milljarða króna.

8. Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta er gert skylt að láta á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum vegna sömu innstæðu. Verði niðurstaðan á þann veg skal taka upp viðræður við viðsemjendur okkar og leiði þær ekki til niðurstöðu getur Alþingi takmarkað ríkisábyrgðina. Þar með geta íslensk stjórnvöld einhliða takmarkað ríkisábyrgðina við aðstæður eins og hér er lýst.

9. Fyrirvarar þeir og skilyrði sem nú hafa verið settir inn í frumvarpið um ríkisábyrgðina verða styrkt til muna við lokaafgreiðslu málsins og þannig tryggt að þau nái þeim tilætlaða árangri að reisa skorður við þeirri ríkisábyrgð sem veitt er vegna Icesave-innlánanna. Þetta er gert þannig að áður en ríkisábyrgðin verður veitt er gert að skilyrði að hollenskum og breskum stjórnvöldum verði kynntir fyrirvararnir og þau fallist á þá með formlegum hætti. Jafnframt er það skilyrði sett að lánveitendur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta viðurkenni að skuldbindingar sjóðsins verði háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgðin.

Með framangreindum hætti eru sett inn ákvæði í frumvarpið sem tryggja afdráttarlaust að skilyrði Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni haldi gagnvart viðsemjendum okkar.

Frú forseti. Fjárlaganefnd hefur á milli 2. og 3. umr. rætt hvort fyrirvarar sem bætt hefur verið við frumvarpið rúmist innan samninganna og er það enn óbreytt skoðun sjálfstæðismanna að niðurstaða um þetta ráðist af viðbrögðum Breta og Hollendinga. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti af samþykkt Alþingis á ríkisábyrgðinni og því er breytingartillaga um að stjórnvöld leiti samþykkis breskra og hollenskra yfirvalda á fyrirvörunum áður en ríkisábyrgðin er veitt til verulegra bóta.

Frú forseti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa allt frá því að málið kom til meðferðar í nefndinni lagt sig fram um að gera tillögur til breytinga á því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram í upphafi. Sú viðleitni og tillöguflutningur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd byggði fyrst og fremst á því markmiði að reyna að takmarka það tjón sem upphaflegt frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur valdið íslenska ríkinu og íslensku þjóðinni. Það markmið hefur að miklu leyti náðst.

Með þeim breytingartillögum sem samþykktar hafa verið á frumvarpi ríkisstjórnarinnar tel ég fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa átt verulegan þátt í því að forða Íslandi frá þeim gríðarlega skaða sem hlotist hefði af upphaflegu frumvarpi.

Frú forseti. Í upphafi settu fjárlaganefndarmenn sér það takmark að ná breiðri pólitískri sátt um breytingartillögu nefndarinnar. Það takmark náðist vegna þess að fulltrúar nefndarinnar unnu af heilindum og báru virðingu fyrir skoðun hvers annars. Er það fordæmi sem ég vona að verði okkur hvatning í störfum þingsins í mörgum erfiðum málum sem fram undan eru.

Þá vil ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, og starfandi varaformanni fjárlaganefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, og nefndinni allri fyrir gott og heiðarlegt samstarf. Jafnframt þakka ég starfsfólki nefndasviðs fyrir vönduð vinnubrögð við erfiðar aðstæður og að lokum vil ég þakka öllum sérfræðingum og almennum borgurum fyrir framlag þeirra til málsins sem var ómetanlegt við úrlausn þess.