137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

(ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og samstarfið í nefndinni sem var með miklum ágætum, það skal tekið fram.

Okkur greinir aðeins á um hvort þeir fyrirvarar sem flokkur hans stendur að, og að frumvarpinu í heild sinni, séu gildir af því að þingmaðurinn nefndi að um gilda fyrirvara væri að ræða. Ég vil benda á að það var meiri hluti allra flokka fyrir utan Samfylkinguna um að hafa fyrirvarana sterka. Sjálfstæðismenn voru á þeirri línu. Í rauninni má segja að það eina sem gerst hafi var að Sjálfstæðisflokkur og Borgarahreyfing ákváðu að fara í skjól Samfylkingarinnar og veikja fyrirvarana. Þess vegna langar mig að spyrja hvort hann muni fallast á fyrirvara þá sem 2. minni hluti, þ.e. sá sem hér stendur, hefur lagt fram og voru í samræmi við það sem þingmaðurinn var eitt sinn sammála.

Nú ræddi hv. þm. Kristján Þór Júlíusson mjög um hryðjuverkalögin og að það væri ósanngjarnt að Íslendingar fengju ekki notið þess ef einhver mundi láta reyna á þau, einnig varðandi mjög gild sjónarmið sem komu fram hjá lögmönnunum Þorsteini Einarssyni og Þórhalli Þorvaldssyni um möguleika á skuldajöfnun. Hann eyddi mörgum orðum í að fara yfir þetta en samt eru engir fyrirvarar sem lúta að þessum atriðum. Ég spyr: Mundi þingmaðurinn samþykkja fyrirvara Framsóknarflokksins sem snerta einmitt þetta atriði?