137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu í dag hefur mjög mikið verið talað á þeim nótum, sem satt er og gott, að það sé mikilvægt að gott samstarf sé á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, ekki síst í máli eins og þessu. Vakin hefur verið athygli á því að á margan hátt hafi tekist mikið samstarf um þetta mál þrátt fyrir að það sé erfitt og mjög umdeilt. Það er kannski í samræmi við það að ég ætlaði að hefja mál mitt á því að taka til varna fyrir hæstv. ríkisstjórn, það urðu hér dálítil orðaskipti í upphafi þessarar umræðu í morgun um hvort eitthvað stæði eftir af því upphaflega frumvarpi sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram varðandi þetta Icesave-mál.

Ég ætla að segja að það er ekki þannig eins og sumir létu í veðri vaka að ekkert standi eftir af þessu frumvarpi. Ég hef skoðað frumvarpið nákvæmlega með gleraugum setningafræðinnar og ég ætla að fullyrða það að það stendur ýmislegt eftir frá upphaflegu frumvarpi, þ.e. við sjáum þarna strjálar samtengingar, svo ég noti málfræðilegt hugtak, orð eins og „en“ og „og“, „eða“ eru til staðar í því breytta frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég vil bara segja að það er ekki alveg sanngjarnt að segja það um mál ríkisstjórnarinnar að ekkert standi eftir af því, það eru þó alla vega þessar málfræðilegu samtengingar sem finna má bæði í upprunalegu frumvarpi og líka í því máli sem við ræðum nú um.

Það sem blasir hins vegar við eftir þessa umræðu í dag og hefur raunar komið fram hjá spunameisturum ríkisstjórnarinnar er að þeir eru strax farnir að reyna að endurrita söguna. Sumir eru auðvitað vel færir til slíkra hluta, þeir eiga sér pólitíska fortíð í hugmyndakerfi þar sem allt kapp var lagt á að endurrita söguna. Og núna er það allt í einu orðið þannig að þeir stjórnmálamenn sem lögðu fram frumvarp í lok júnímánaðar sem fól í sér galopna heimild til ríkisábyrgðar, eru skyndilega orðnir miklir talsmenn þess og áhugamenn um það að setja inn í það frumvarp að eigin sögn sterka fyrirvara og sterk skilyrði.

Við vitum hins vegar betur sem höfum fylgst með þessu máli hérna. Það var aldrei ætlunin, hvorki að reyna að ná pólitískri sátt um málið né heldur að setja inn í það einhverja fyrirvara eða skilyrði. Þvert á móti var frumvarpið eins og það var lagt fram vel pæld og úthugsuð ákvörðun um að setja málið fram og vinna það eingöngu á forsendum ríkisstjórnarinnar. Það var ætlunin að þetta mál yrði ekki þverpólitískt. Við sjáum það einfaldlega á vinnubrögðunum og þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að reyna að búa til einhverjar pólitískar slaufur í kringum samninganefndina í umræðum hér áðan blasir það við hverjum einasta manni að málið átti að vera verk ríkisstjórnarinnar. Eins og málið var undirbúið, eins og skipað var í samninganefndina, eins og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir málinu hér við 1. umr. og eins og þau mál hafa síðan verið lögð fram og þau mál voru síðan keyrð áfram af stuðningsmönnum hans og ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi, var það aldrei ætlunin að um það mál yrði einhver þverpólitísk vinna, ætlunin var að það væri einmitt verk ríkisstjórnarinnar.

Við skulum ekkert vera að taka heiðurinn af ríkisstjórninni í þessu máli. Hún á alveg skuldlausan og þinglýstan heiður af frumvarpinu sem var lagt fram í upphafi, það var ekki nein þverpólitísk samstaða um það. Við munum líka úr þeirri umræðu að þá voru menn ekkert að tala um að setja inn einhverja fyrirvara eða skilmála.

Muna menn eftir ræðum hæstv. fjármálaráðherra um að þegar málið færi inn í þingið ætti að setja inn í það fyrirvara og skilmála á ríkisábyrgðina? Ég hlustaði gjörla á þessa ræðu og hef farið yfir hana síðan og það var ekki stafkrókur um það. Það frumvarp sem við fengum í hendurnar var galopin, skilmálalaus heimild til þess að íslenska ríkið ábyrgðist þessar greiðslur. Þó vissu það allir að það var fullkomin óvissa í þessu máli og spurningin var einfaldlega þessi: Ráðum við við að greiða þetta? Auðvitað getur eða gat enginn svarað því. Við erum hér að tala um tímamörk fram til ársins 2024, 15 ár, og hvaða menn hafa þannig kristalskúlu að þeir geti séð fram í tímann 15 ár? Gat t.d. einhver sagt um árið 1994 hvert efnahagslegt ástand yrði hér á landi 2009? Hverju halda menn að menn hefðu spáð árið 1994 um efnahagslega framvindu til ársins 2009? Það hefði auðvitað verið tóm vitleysa og það vita allir. Þess vegna var það algjörlega galið og algjörlega ábyrgðarlaust af hæstv. ríkisstjórn að setja fram frumvarp og gera samning sem fól í sér opna, almenna heimild um ríkisábyrgð sem enginn vissi hvað mundi fela í sér háar upphæðir, ekki reiknilíkanamennirnir okkar í efnahagsstofnunum, þeir hafa ekki gert sér grein fyrir þessu. Og auðvitað vissi ríkisstjórnin að hún var að leggja fram algjörlega galopinn tékka, óútfylltan víxil sem við mundum ekkert vita hver yrði upphæðin á á lokadegi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði t.d. í upphafi þessa máls í byrjun júlí að endurheimtur á eignum Landsbankans yrðu ekki minni en 95%, ekki minni, kannski meiri, og var farinn að tala með álíka bjartsýnum hætti og talsmenn Landsbankans gerðu í lok síðasta árs. Auðvitað vildi hæstv. forsætisráðherra geta tekið aftur þessi orð en töluð orð verða bara aldrei aftur tekin, það er gallinn.

Þess vegna var stórhættulegt að skilja við málið eins og hæstv. ríkisstjórn vildi gera, að hafa það svona opið og óvissan og áhættan væri öll okkar megin. Þess vegna er mjög mikilvægt að búið sé að setja inn í þetta mál efnahagslega fyrirvara sem virka. Það er ekki bara þannig, eins og við gerðum við 2. umr. málsins, að setja inn ákvæði sem felur í sér að við greiðum bara tiltekið hlutfall af vexti þjóðarframleiðslunnar sem á að tryggja að við getum ráðið við þessar greiðslur, heldur líka hitt sem við erum núna að fara að lögfesta við lok þessarar umræðu, ákvæði sem felur það í sér að það verður sólarlagsákvæði á þessari ríkisábyrgð. Henni lýkur 5. júní 2024. Hún hefði hins vegar verið út í hið óendanlega í rauninni eins og frumvarpið var lagt fram.

Við sjáum af þeirri töflu sem hér hefur stundum verið nefnd í þessari umræðu í dag sem fylgir nefndaráliti okkar í 1. minni hluta fjárlaganefndar hvaða áhrif þetta hefur. Þetta hefur gífurlega mikil og jákvæð áhrif fyrir greiðsluflæðið, fyrir skuldbindinguna, og það er alveg ljóst að þetta er varnagli sem skiptir mjög miklu máli og er í raun og veru grundvallandi fyrir þetta mál. Við vitum hvað ríkisstjórnin vildi og við vitum hvað fylgismenn hennar ætluðu sér að gera, það var aldrei ætlunin að semja um neitt annað en það frumvarp sem fyrir var lagt.

Það sem hefur hins vegar gerst núna er að ríkisstjórnin og fylgilið hennar hafa verið neydd til þeirrar niðurstöðu sem er núna á borðum þingmanna. Stjórnarliðar, þ.e. sá hluti ríkisstjórnarliðsins sem á annað borð studdi málið, voru dregnir emjandi og sparkandi að þessari niðurstöðu alveg eins og ég hef áður sagt. Það var ekki ætlun þeirra að þetta yrði niðurstaðan, það var ætlun þeirra að samþykkja hér frumvarp og gáfu heimild til þess að samþykkja það án þess að hafa séð samninginn sem fól í sér galopna og ótakmarkaða heimild til ríkisábyrgðar upp á upphæð sem enginn vissi hver yrði.

Nú er allt í einu talað um að þetta séu veigamiklar breytingar sem búið er að gera. Að vísu urðu þau þáttaskil í umræðunni rétt fyrir hádegisverðarhlé að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson viðurkenndi í fyrsta sinn að niðurstaðan sem núna væri að verða borðleggjandi mundi hafa áhrif á samninginn sjálfan. Mér er ekki kunnugt um að stjórnarliðar eða ábyrgir aðilar úr stjórnarflokkunum sem komið hafa að þessu máli með sama hætti og hv. þingmaður, hafi viðurkennt það fyrr en núna.

Þetta eru nokkur pólitísk tíðindi enda blasir það við hverjum einasta manni og það þarf enga sérstaka snilligáfu til þess að átta sig á því að þær grundvallarbreytingar sem gerðar hafa verið á þessu máli — í raun og veru má segja að ríkisstjórnin hafi verið send í skammarkrókinn með sitt upphaflega mál vegna þess að hún var gerð afturreka. Það var ekki pólitískur vilji til þess að samþykkja málið og þess vegna varð niðurstaðan í þessari vinnu sú að breyta málinu — ekki vegna þess, eins og sumir stjórnarliðar eru núna farnir að segja og reyna endurskrifa söguna, að það hafi verið svo ríkur vilji til þverpólitísks samstarfs eða mikill áhugi á því að þingræðið tæki völdin af framkvæmdarvaldinu. Það var einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin réði ekki við málið. Hún var flatreka í þessu máli og hana hafði borið upp á sker, það er ekki flóknara en það.

Við erum að tala um gjörbreytt mál, mál sem var breytt þrátt fyrir harða andstöðu þeirra sem fluttu það. Þegar menn reyna að gera sem minnst úr því að breytingarnar hafi áhrif á samningana sjálfa er eins og þeir séu að tala um að þessir samningar séu teygjanlegir, þeir hafi ekki verið skrifaðir á löggiltan skjalapappír heldur á eitthvert teygjanlegt efni. Mér dettur í hug hvort menn ímyndi sér að þegar þessir samningar voru undirritaðir úti í Evrópu hafi þeir verið skrifaðir á tyggjóplötu sem megi teygja eins og menn vilja eða séu einhvers konar blaðra sem menn geti blásið út og breytt síðan eins og þeir hafa orku til að láta hana breytast.

Við skulum bara segja þessa sögu eins og hún er. Það sjá það allir sem ekki eru núna í óðaönn við að reyna að endurrita söguna sér í hag að þetta mál hefur tekið mjög miklum breytingum vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki afl til þess að fylgja eftir sínum upphaflegu áformum.

Nú við 3. umr. málsins er einnig verið að styrkja fyrirvarana í þessum samningum og það er mjög þýðingarmikið. Það væri auðvitað til lítils að gera fyrirvara ef þeir hefðu ekkert eiginlegt gildi. Alveg eins og Ragnar H. Hall benti á í Morgunblaðinu í morgun er ljóst mál að skiptir mjög miklu máli hvernig þeir fyrirvarar eru, þeir skilmálar sem verið er að skrifa inn í þetta frumvarp, þetta gjörbreytta nýja frumvarp í rauninni, fyrir utan auðvitað hinar málfræðilegu samtengingar, og með hvaða hætti þessir fyrirvarar eru tryggðir.

Tryggingin felst í því að áður en ríkisábyrgðin verður veitt verða þeir virðulegu herramenn Gordon Brown og Peter Balkenende í Hollandi að fallast á að samþykkja þessa fyrirvara. Þeir verða að fallast á að þessir fyrirvarar séu óaðskiljanlegur hluti af þessu máli. Þar með er auðvitað verið að renna stoðum undir það og styrkja þetta mál allt saman eins og það er.

Virðulegi forseti. Það er hægt að hafa ansi mörg orð um þetta mál og væri fróðlegt og áhugavert að fara yfir ýmsa þætti samningsins sjálfs. Það hefur þegar verið gert af ýmsum öðrum hv. þingmönnum, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum sem hér hafa talað, bæði af hálfu Sjálfstæðisflokksins og annarra, þannig að ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða það. Ég vildi þess vegna frekar tala um þetta mál út frá þeim pólitíska veruleika sem mér finnst málið vera statt í og þeim vinnubrögðum og þeirri stöðu sem málið er í að öðru leyti.

Það er mjög undarlegt að hugsa til þess, þegar við erum að tala um eitt stærsta milliríkjamál sem rekið hefur á okkar fjörur, ef ég get orðað það svo, þetta Icesave-mál, að það skuli hafa verið unnið — ja, mér liggur við að segja af því kæruleysi sem mér hefur fundist hafa einkennt málið. Hér er ég ekki síst að vísa til þess að ríkisstjórnin ákvað það í byrjun júlímánaðar, eftir einn formlegan samningafund, að ganga frá samningi, vitandi vits um að ekki væri pólitískur meiri hluti á bak við málið. Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál, það dregur að sjálfsögðu úr trúverðugleika okkar gagnvart öðrum þjóðum. Gleymum því ekki að einn yfirlýstur tilgangur þess að reyna að ná niðurstöðu í málinu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar var einmitt sá að reyna að auka hróður ríkisstjórnarinnar en umfram allt þjóðarinnar gagnvart umheiminum.

Hvaða trúverðugleiki er í því þegar ein ríkisstjórn gengur frá samningi af þessari stærðargráðu sem hefur svona miklar afleiðingar og gerir það með þeim hætti að hún veit að óbreyttur samningur verður ekki staðfestur af Alþingi? Það er ekki þannig að þetta hafi slysast einhvern veginn svona. Bent hefur verið á í þessari umræðu áður að a.m.k. þrír hv. þingmenn VG lýstu því yfir að ríkisstjórnin fengi ekki umboð þeirra til að undirrita þennan samning. Þetta er mjög alvarlegt mál og er til marks um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli. Þess vegna var það gríðarlega mikilvægt þegar það tókst að lemja ríkisstjórnarmeirihlutann að samningaborðinu hér innan lands og ná viðunandi niðurstöðu hvað varðar þetta tiltekna frumvarp þó að (Forseti hringir.) Icesave-samningurinn sjálfur sé jafnómögulegur og áður.