137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi fyrstu spurninguna, um hvort sé rétthærra, samningurinn eða fyrirvararnir. Það er alveg ljóst mál í mínum huga að eins og gengið hefur verið frá málinu í þinginu eru fyrirvararnir af þeim toga að þeir hafa bein áhrif á samninginn. Þess vegna verður samningurinn í raun og veru ekki fullnustaður nema með ríkisábyrgð og sú ríkisábyrgð verður ekki veitt nema fyrirvararnir séu samþykktir. Ég lít því þannig á að fyrirvararnir hafi með þessum hætti bein áhrif á samninginn sjálfan.

Er það svo, spurði hv. þingmaður, að ég telji að við eigum fortakslaust að ábyrgjast Icesave-skuldbindingarnar. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar. Við vorum hins vegar í ákveðinni stöðu varðandi þetta mál á sínum tíma sl. haust. Þá voru hafðar uppi við okkur alvarlegar hótanir, eins og fram kom á þeim tíma, og með hliðsjón af því og eftir mat Alþingis á hagsmunum okkar varð niðurstaðan sú að við mundum reyna að freista þess að leita eftir pólitískri lausn á málinu út frá tilteknum viðmiðunum sem síðar hafa verið kölluð Brussel-viðmið.

Það sem er hins vegar mjög ámælisvert er að hæstv. ríkisstjórn nestaði má segja samninganefndina með þannig bréfi að þar var ekki gengið frá því að menn væru bundnir af þessum fyrirvörum.

Hversu háar fjárhæðir er hér um að ræða? Við erum að setja hámark í þetta með þeim efnahagslegu fyrirvörum sem búið er að setja inn í málið og verða settir inn í málið eins og ég gerði grein fyrir áðan. Varðandi skuldajöfnun er ég sammála því að það hafi verið einn af göllum þessa samnings að klippa á möguleika okkar varðandi skuldajöfnunina. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að við áskiljum okkur allan rétt til þess að fylgja eða flytja breytingartillögur í þá veru sem við teljum að geti orðið til þess að styrkja þennan samning frekar.