137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að þeir fyrirvarar sem festir eru við samningana bæti vissulega stöðu okkar og þess vegna var nú lagt af stað í þessa fyrirvaravinnu. Ég er líka sammála hv. þingmanni um það að fyrirvararnir eru algjörlega ósamrýmanlegir samningnum sjálfum, þetta tvennt getur ekki gilt samtímis. Nú liggur fyrir að það á að falast eftir því að Bretar og Hollendingar staðfesti fyrirvarana. Þeir öðlast þá væntanlega gildi og það hlýtur þá að fela í sér að samningunum verði breytt til samræmis við það því að eins og ég segi, hvort tveggja getur ekki staðið samtímis.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að þessir fyrirvarar og sá samningur sem kæmi út úr því, ef fyrirliggjandi samningum væri breytt í samræmi við fyrirvarana, sé ásættanlegur og þar af leiðandi að fyrirvararnir gangi nógu langt, leiði til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Íslendinga?

Í öðru lagi, og leiðir kannski dálítið af svarinu við fyrri spurningunni: Vonast þingmaðurinn eftir því að Bretar og Hollendingar staðfesti þessa fyrirvara og þar með væntanlega breytist samningarnir? Eða vonar þingmaðurinn að þeir hafni fyrirvörunum og þar af leiðandi sé ekki um annað að ræða en að fara í samningaviðræður að nýju?