137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Ég fór fram á að ýmis gögn sem ég taldi ástæðu til að ætla að lægju fyrir í a.m.k. utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Seðlabanka um samskipti við Hollendinga og Breta yrðu lögð fram. Það var auðvitað snautlegt sem kom síðan út úr þessu. Það voru tölvupóstssamskipti sem fólu ekki í sér nokkur einustu efnisatriði og ef marka má af þeim tölvupóstum hafa þau samskipti ekki verið uppbyggileg, fróðleg og jákvæð — ég man ekki hvaða orð það voru sem Indriði Þorláksson, aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, notaði um þessi samskipti. Það hafa þá bókstaflega ekki verið nokkur einustu samskipti nema að segja frá því að „nú væri ég búinn að senda tölvupóst og þakka fyrir síðasta tölvupóst og þakka sömuleiðis fyrir að hafa fengið tölvupóst að utan“.

Þetta voru svona efnislegu atriðin úr þessum tölvupóstssamskiptum sem virðast hafa gengið á milli Hollendinga, Breta og Íslendinga út af þessu mikla Icesave-máli og má kannski draga ýmsar ályktanir um það hversu alvarlega menn hafa tekið þetta mál af hálfu íslensku stjórnsýslunnar.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þingmanni að ég tel að það eigi að vera þannig við stjórn nefnda að menn eigi að vera ákaflega liprir og verða við óskum þingmanna, eins og að kalla sérfræðinga fyrir nefndir. Auðvitað geta menn sagt sem svo, og það hef ég oft upplifað sem nefndarformaður, að stundum ganga einhverjir á lagið og reyna að misnota gæsku manns í þeim efnum. En almennt talað ræður meiri hluti nefndarinnar í þessum efnum og við sjálfstæðismenn lögðumst ekki gegn því að Stefán Már Stefánsson kæmi að nýju fyrir nefndina. Ég sjálfur nefndi tiltekna aðila sem ég óskaði eftir að kæmu fyrir nefndina. Við því var orðið. En ég kann ekki skýringar á því og hv. þingmaður verður að rukka formann og forustu nefndarinnar varðandi það af hverju ekki var orðið við því að fá Stefán Má Stefánsson. Við sjálfstæðismenn lögðumst ekki gegn því.