137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa furðað sig á fjarveru hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliða í þessari umræðu. Ég hef vakið máls á því held ég í hvert og eitt einasta sinn sem ég hef staðið hér upp í umræðum um þetta ágæta mál að það er alveg merkilegt að ákveðnir stjórnarliðar skuli ekki sjá sér fært að vera við umræðuna, hvað þá að taka þátt í henni, vegna þess að ég tel að margt mundi skýrast ef þeir gerðu svo.

Varðandi ráðherrana hæstv. tel ég að það sé einsýnt að þeir verði kallaðir til og mér láðist nú að hlusta eftir því hvort það væri einhver von á þeim, forseti gæti kannski upplýst um það. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að hæstv. ráðherrar taki þátt í 3. umr. vegna þess að eins og Framsóknarflokkurinn hefur verið iðinn við að benda á í þessari umræðu hefur verið ákveðinn túlkunarmunur í gegnum málið allt saman á því hvort hér sé um gjörbreytt mál að ræða eða ekki. Ég, eins og flestir sjálfstæðismenn, stend í þeirri meiningu. Og ég trúi því statt og stöðugt að ef þessir fyrirvarar fara í gegn hjá Bretum og Hollendingum — vegna þess að með þeim breytingum sem við erum að gera núna við 3. umr. gerum við það að skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskir og hollenskir ráðamenn verði ekki bara kynntir þessum fyrirvörum heldur líka að þeir fallist á þá.

Þá er mjög mikilvægt fyrir okkur áður en við greiðum atkvæði um ríkisábyrgð að vita hvernig málstað okkar verður komið á framfæri við bresk og hollensk stjórnvöld. Rætt var hér í fyrri ræðu um það hvernig þessi samskipti hafa átt sér stað og var með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Einar Guðfinnsson lýsa tölvupóstssamskiptunum sem hann átti í. Ég kallaði eftir því við 2. umr. þessa máls að öll samskipti yrðu gerð opinber sem orðið hafa milli Breta og Hollendinga og okkar og þá ekki síst hvernig málstað okkar og þeim breytingartillögum og breytingum sem við erum búin að gera í þessu máli er komið á framfæri við viðsemjendurna. Er ríkisstjórnin enn þá að kynna þetta sem þess lags breytingar, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í fjölmiðlum, að það þyrfti að beita skapandi hugsun en samningurinn héldi. Það hefur truflað mig, virðulegur forseti, og heldur áfram að trufla mig. Þess vegna finnst mér með ólíkindum þegar ég horfi hér á mælendaskrána að enginn hæstv. ráðherra hefur tekið til máls í þessari umræðu fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra í stuttu andsvari. Formaður og starfandi varaformaður fjárlaganefndar — og hv. starfandi varaformaður gengur hér í salinn — hafa báðir talað.

Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vakti athygli á urðu nokkur tímamót þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði hér fyrr í morgun og viðurkenndi þar í fyrsta sinn af hálfu stjórnarliða að þessar breytingartillögur mundu hafa áhrif á samninginn. Það tel ég vera mjög gott að komi fram frá hv. þingmanni (Gripið fram í.) en betur má ef duga skal. Ég vildi gjarnan fá að heyra hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra segja það úr þessum ræðustól áður en við göngum til atkvæða um þetta mál, vegna þess að þau eru þeir aðilar sem munu á endanum kynna sjónarmið okkar. Og ég verð að segja alveg eins og er að miðað við hvernig þau hafa gert það hingað til og hafa haldið á málum, vantreysti ég þessu hæstv. tríói nokkuð, virðulegur forseti.

Það var nefnilega mjög ankannalegt þegar hæstv. fjármálaráðherra fór í andsvar áðan við formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, þegar hann fór nú að draga það atriði líka til baka að hér hafi verið skipuð ný samninganefnd. Ég man ekki betur, eins og kom líka fram í svari formanns Sjálfstæðisflokksins, en að hæstv. ráðherrann hafi gumað mjög af því fyrr í vetur að nú væri búið að skipa nýja samninganefnd, nú ætti að gera hlutina allt öðruvísi og þegar leið á ferlið átti að fara að koma glæsileg niðurstaða sem var einmitt byggð á nýrri aðferðafræði. Núna tveimur, þremur mánuðum síðar er ekki bara glæsilega niðurstaðan orðin bærileg og sú eina mögulega og ég veit ekki hvað, núna er samninganefndin líka orðin eitthvað sem ráðherrann hæstv. vill ekki kannast við.

Orðin hitta mann fyrir og ef maður skoðar bara hvað ríkisstjórnin hefur verið að segja um þetta mál alveg frá upphafi hefur það verið á þann veg að það er ömurlegt, við getum öll tekið undir það. Við höfum ekkert val um hvort við samþykkjum þessa samninga eða ekki, þetta eru bestu samningarnir sem við getum fengið. Ef við samþykkjum þá ekki, ef við fellum þá, förum við til baka til októbermánaðar, ef við fellum þá verðum við Kúba norðursins, eins og hæstv. viðskiptaráðherra — sem ekki hefur sést hér í marga daga — tók til orða.

Það var aldrei viðurkennt, eins og komið hefur fram í máli okkar í stjórnarandstöðunni, að eitthvað væri að þessum samningi. Núna erum við loksins komin á þann stað að við erum búin að kollvarpa samningnum, við erum búin að gerbreyta honum, við erum í rauninni búin að senda samninginn aftur til föðurhúsanna og gera viðsemjendum okkar gagntilboð. Við erum að segja með þessu, Alþingi Íslendinga talar hér mjög skýrt: Þessi samningur sem hæstv. fjármálaráðherra ber ábyrgð á er ekki boðlegur Alþingi Íslendinga og við viljum ekki samþykkja hann svona.

Menn geta talað út og suður og talað um túlkanir og söguskýringar eins og hæstv. ráðherra gerði hérna, en það breytir ekki því að þetta er staða málsins og þá eigum við að segja það. Þess vegna ítreka ég að ég vil heyra frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar um það hvernig þessum breytingum verður fylgt eftir og hvaða skilning þau leggja í það.

Ég ætla ekki að rekja efnislega þær breytingar sem við erum að gera, aðrir hafa gert það á undan mér og það mjög vel. Ég vísa í ágæta töflu í framhaldsnefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, fskj. I á bls 11, þar sem samanburður er gerður á frumvarpinu og breytingartillögum og þar tel ég öll meginefnisatriðin koma fram og skýrir og sýnir vel breytinguna sem verið er að gera á frumvarpinu.

Ég vil aðeins ítreka að þessar breytingar kollvarpa frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Er það minn skilningur að fallist Bretar og Hollendingar á fyrirvarana, séu þeir í raun og veru að fallast á nýjan samning. Ég vona svo sannarlega að þeir muni gera það vegna þess að ég tel að ef það verður niðurstaðan og Bretar og Hollendingar fallast á hana, verði þetta mál til lykta leitt með bærilegri hætti en stefndi í. Ef þeir gera það ekki tel ég einsýnt að við verðum að byrja á málinu upp á nýtt og semja upp á nýtt og þá vona ég að það verði gert af meiri alvöru og af meiri metnaði en hæstv. fjármálaráðherra lagði í þennan samning.