137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki verið nógu skýr í fyrirspurn minni. Þetta snýst allt um fyrirvarana og hvort Bretar og Hollendingar taki þá gilda. Spurningin var raunverulega þessi: Nú hefur ekki verið gerð nein breytingartillaga eða fyrirvari um að gjaldfellingarákvæðunum verði kippt úr sambandi í þessu frumvarpi og þeim fyrirvörum sem lagðir eru fyrir. Skapast þá ekki mikil hætta næstu sjö árin á því að Bretar og Hollendingar sjái sér hag í því að gjaldfella samninginn í heilu lagi og þar með að íslenska ríkið sitji uppi með að greiða þann samning, vegna þess að hvergi er að finna aftengingu í fyrirvörunum við þessi íþyngjandi gjaldfellingarákvæði sem finna má í 12. gr. breska samningsins og 11. gr. hollenska samningsins?

Að öðru leyti deili ég áhyggjum með þingmanninum og erum við sammála um að þetta er mjög flókið og erfitt mál.