137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum einfaldlega komin að kjarna málsins hérna, það er einfaldlega heiðarlegast og bara hreinlegast gagnvart samningsaðilunum í þessu máli, Íslendingum, Bretum og Hollendingum, að við setjum þennan samning til hliðar og setjumst að nýju við samningaborðið í staðinn fyrir að við séum að ræða hérna fram og til baka einhliða um hvort fyrirvararnir okkar haldi. Og síðan eins og nú er verið að benda á, ef við teljum að fyrirvarar okkar haldi getur verið að Bretar og Hollendingar telji sig líka þurfa að breyta einhverju einhliða í þessum samningum, einhverju sem þeir eru ósáttir við.

Þetta sýnir okkur að þó að við séum að fara að afgreiða málið hérna í kvöld eða á morgun er því alls ekki lokið. Það er alveg ofboðsleg óvissa enn þá í þessu og það kemur svo sem líka ítrekað fram í þessum blessuðu breytingartillögum sem koma frá meiri hluta fjárlaganefndar að málið mun koma (Forseti hringir.) aftur og aftur inn á borð þingsins miðað við þá fyrirvara sem við leggjum fram. (Forseti hringir.) Hvað munu Bretar og Hollendingar síðan gera?