137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er hvorki hægt að komast aftur á bak né áfram í þessu máli því að í samningnum stendur að ríkisábyrgð þurfi að koma til, annars gjaldfelli Bretar og Hollendingar samninginn. Það sem ég óttast svo mjög er að það er enginn fyrirvari sem tekur á því að aftengja gjaldfellingarákvæðin því að þau eru mjög íþyngjandi, þau eru í 12. gr. í hollenska samningnum og 11. gr. í breska samningnum, ef ég hef ekki snúið þessu við. Gjaldfellingarákvæðið er það að ef íslenska ríkið getur ekki greitt skuldir sínar, þar með talið Landsvirkjun, af því að það er ríkisábyrgð á henni, verður samningurinn tafarlaust gjaldfelldur.

Ég treysti Bretum og Hollendingum ekki betur en svo eftir beitingu hryðjuverkalaganna hér í vetur en að þeir sjái sér leik á borði og segi að það sé allt í fína lagi með bæði fyrirvarana og samningana, þeir taka gildi eftir sjö ár, svo sjái þeir sér fyrsta leik á borði við það að gjaldfella samningana á okkur á þessu sjö ára tímabili þar til þessi ríkisábyrgð með fyrirvörum tekur gildi.