137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég held að við séum einmitt komin í þá stöðu nú þegar sem Lee Buchheit varðaði við, að við gætum í raun og veru aldrei með þetta slæman samning, versta samning sem hann sagðist nokkurn tíma hafa séð í skuldaskilum á milli þjóðríkja, sett fyrirvara við öllu sem við þurfum að setja fyrirvara við. Þess vegna finnst mér mjög skrýtið það sem ég hlustaði á í andsvörum við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur eftir fyrri ræðu hennar þar sem hún talaði um að hér væri um nýjan samning að ræða sem byggðist á tillögum sjálfstæðismanna.

Nú talaði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson um að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á samningnum en ef þetta eru tillögur sjálfstæðismanna, má ekki segja að þar með sé þetta orðinn samningur sjálfstæðismanna og sjálfstæðismenn muni þá væntanlega bera ábyrgð á þeim samningi sem getur hugsanlega reynst handónýtur?