137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem þetta gengur út á í örstuttu máli er að okkur var gert að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Gert var ráð fyrir að það væru að lágmarki 20.000 evrur á hvern reikning. Stjórnarandstaðan á þeim tíma, hæstv. utanríkisráðherra — þó að hann sé ekki í forustu fyrir þessu máli heldur hæstv. núverandi forsætisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra — sagði: Þetta er ekki nóg, við eigum að ábyrgjast allt saman, og flutti tillögu um það. Sú tillaga var felld með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, sem betur fer, 34 atkvæðum gegn 16. Miðað við útreikninga tryggingastærðfræðings hefði þetta þýtt að við værum hér að véla um 400 milljörðum meira ef tillaga Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefði verið samþykkt.