137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum á lokasprettinum í þessu stóra og mikla máli sem margir hafa dregið fram að sé, og ég tek undir það, er ein nöturlegasta birtingarmynd bankahrunsins frá síðasta hausti. En það verður líka að segja að hún er hálfnöturleg, birtingarmynd verklags ríkisstjórnarinnar eins og hún hefur birst okkur í þinginu í allt sumar. Við skulum muna að þó að það hafi verið ákveðin viðkvæmni af hálfu til að mynda hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag er það engu að síður þannig að upphaflega átti ekki að sýna þingheimi samninginn. Við áttum ekki að fá að vita neitt um innihald samningsins, það var bara „suss, suss“ og þingið átti að verða þessi hefðbundni stimpilpúði sem það hefur því miður of oft verið. Við áttum ekki að fá að fara gaumgæfilega yfir samninginn. Það voru líka orð höfð uppi um að það ætti að vera glæsileg niðurstaða fyrir hönd þjóðarinnar og við þekkjum öll þessa sögu. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið mjög gaumgæfilega yfir hana alla í ræðum sínum og gert það vel.

Ég vil undirstrika það og tek undir með félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum að við stóðum frammi fyrir því að fara þá leið að sýna þá stjórnarandstöðu sem hefur verið og við þekkjum allt of oft í gegnum tíðina, stjórnarandstöðu sem týndi sér í að segja nei, nei og aftur nei og vera á móti endalaust, oft án gildra raka. Það var sú stjórnarandstaða sem við þekktum þegar Steingrímur J. Sigfússon réði ríkjum og var oft og tíðum eftirtektarverð, oft og tíðum skondin á að hlusta en ég veit ekki hversu skilvirk hún var. Við stóðum annars vegar frammi fyrir því að segja einfaldlega nei og leggja ekkert til málanna í þessu stóra og mikla máli og hins vegar reyna að breyta málinu þannig að við værum að gæta íslenskra hagsmuna og við sjálfstæðismenn fórum í þann leiðangur. Sumir hafa deilt á okkur af því að við fórum í þann leiðangur að breyta málinu en við ákváðum að gera það. En ég, eins og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér inni, spáði því að ellegar mundu verða gerðar einhverjar málamyndabreytingar á þessum ömurlega samningi sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á en vill ekki kannast við, og honum væntanlega þröngvað í gegnum þingið með hugsanlega eins atkvæðismeirihluta. Þannig blasti veruleikinn við og þess vegna ákváðum við sjálfstæðismenn að fara í þann leiðangur að breyta samningnum. Og það má með réttu segja að náðist hafi ákveðin samstaða, það var ákveðin andspyrnuhreyfing innan Vinstri grænna sem fór í þennan leiðangur með okkur, stóð vaktina með okkur, og ég tel að við höfum í rauninni gerbreytt málinu öllu þannig að við stöndum frammi fyrir því að Hollendingar og Bretar verða að taka á móti gerbreyttum samningi. Sumir hafa talað um gagntilboð eða í rauninni nýjan samning. Hvað gerist þá? Hvað gerist í framhaldinu þegar og ef þingið fer þá leið að samþykkja alla fyrirvarana og koma málinu í gegn?

Það gerist tvennt: Annars vegar munu Hollendingar og Bretar samþykkja þessa fyrirvara og ég vil undirstrika að þar hafa komið menn að málum eins og hv. þm. Pétur Blöndal, sem frá upphafi var algerlega andsnúinn Icesave-samningnum öllum, alveg frá því sl. haust, einnig hagfræðingar og þingmenn eins og Tryggvi Þór Herbertsson. Ég ætla mér ekki að setja mig í hagfræðisporin hér, þeir fullvissa bæði mig og þingheim um að þessir fyrirvarar eru mikilsverðir fyrir íslenska þjóð og íslenska hagsmuni og þess vegna sé rétt að styðja þá fyrirvara sem lagðir eru fram og settir fram af meiri hluta fjárlaganefndar.

Það er mikilvægt að halda því til haga að við erum búin að gerbreyta þessu máli. Ef Hollendingar og Bretar samþykkja ekki þennan samning eða ríkisábyrgðina eins og hún mun koma frá þinginu er ljóst að það þarf að semja upp á nýtt. Þeir tveir kostir sem við stöndum frammi fyrir eru mun betri kostir en ríkisstjórnin lagði upp með í upphafi þessa sumars þar sem ekki mátti tala um að breyta samningnum því að ríkisstjórnin tók málið í sínar hendur. Þegar menn eru í ríkisstjórn þurfa þeir að sýna ábyrgð, ekki ábyrgðarleysi, á eigin athöfnum og eigin verkum. Það er eins og ríkisstjórnin vilji ekki kannast við að hafa skipt um samninganefnd. Það er óskapleg viðkvæmni fyrir þessum punkti. Það er eins og ríkisstjórnin vilji ekki kannast við að hafa lagt fyrir þingið samning sem naut ekki stuðning ríkisstjórnarinnar sjálfrar og það er umhugsunarefni að fjármálaráðherrann skuli hafa skrifað undir samning í byrjun júní vitandi það að hann hefði ekki stuðning allrar ríkisstjórnarinnar og líklega alls þingsins. En það mun koma í hlut seinni tíma söguskýringa af hverju það var gert og hvort hann hafi í rauninni haft heimild til þess vitandi það að hann hafði ekki þingmeirihluta á bak við ríkisábyrgðina. En gott og vel. Málið er gerbreytt. Það skiptir miklu máli og ég tel stöðu Íslands mun betri eftir að þingið var búið að fara höndum um þennan óskapnað ríkisstjórnarinnar.

Það er hægt að tala um marga og segja að margir hafi lagt hönd á plóg. Stjórnarandstaðan hefur gert það, allir hafa reynt að koma að þessum breytingum þótt menn hafi síðan mismunandi viðhorf til fyrirvaranna sem slíkra. Andspyrnuhreyfingin innan Vinstri grænna hefur staðið sína plikt en ekki síður þau frjálsu félagasamtök sem hafa á málefnalegan hátt, ég undirstrika — á málefnalegan hátt komið fram með röksemdir sínar og þingmenn og þingið hafa hlustað. Indefence-hópurinn kom með mjög mikilsverðar athugasemdir á milli 2. og 3. umr. og ég sagði það við 2. umr. að ég gæti ekki samþykkt fyrirvara nema það væri víst að þeir munu halda og ég tel víst að svo sé og ég hlusta á vísra manna ráð hvað það varðar. Indefence-hópurinn telur það, lögfræðingar sem komið hafa að málinu telja að svo verði, enda verða Hollendingar og Bretar að samþykkja þá, ellegar taka þeir ekki gildi, ellegar verður að semja upp á nýtt og það er heldur ekkert verra.

Þá hafa menn komið að málum eins Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal og komið með mjög mikilsverðar ábendingar sem á hefur verið hlustað, og ekki síður Ragnar H. Hall. Hægt væri að telja áfram þá einstaklinga og þau samtök sem segja að málið sé allt mun betra og íslenskra hagsmuna betur gætt.

Rætt hefur verið um að ýmislegt sé að breytast í þinginu. Ég vona það en ég er ansi hrædd um að svo sé ekki því að ríkisstjórnin sýndi mikla óbilgirni í þessu máli, hún ætlaði ekki að leyfa þinginu að sjá það og þetta er ekki fyrsta málið sem sýnir okkur ríkisstjórnin vill ekki ná samstöðu meðal þings og þjóðar í stórum málum. Hægt er að nefna þetta mál, hægt er að nefna ESB-málið, hægt er að nefna fiskveiðistjórnina. Það á ekki að nást sátt í neinum merkilegum og mikilvægum málum. Það er hægt að nefna stjórnarskrárbreytingar o.s.frv. Ég ber því miður enn þann ugg í brjósti að þetta sé „einsskiptismál“ af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, að stórmál verði unnið með sama hætti og þetta mál hefur verið unnið. Eftir sumarið fer ríkisstjórnin enn og aftur með dagskrárvald þingsins. Við höfum til að mynda ekki fengið að ræða önnur mál. Við fengum ekki að ræða tillögur varðandi efnahagsmálin þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra hefði tekið tillögum okkar sjálfstæðismanna mjög vel strax í byrjun sumars, þær skipta máli varðandi uppbyggingu heimilanna. Ríkisstjórnin skilur eftir heimilin, fyrirtækin, atvinnuuppbyggingu í orkugeiranum, í atvinnumálum almennt, í bankamálum o.s.frv. í óvissu eftir sumarið. Atvinnustig hefur ekki hækkað heldur hefur það frekar aukist en hitt, vextir hafa ekki lækkað, eins og menn hafa verið með væntingar um o.s.frv. Ríkisstjórnin hefur í rauninni ekki skilið neitt eftir hjá þjóðinni eftir sumarið nema óvissu. Þingið hefur hins vegar skorið hana að vissu leyti úr snörunni varðandi þetta mikilvæga mál. Ég tel að í ljósi alls skipti miklu máli að við höfum náð fram mikilvægum fyrirvörum. Það er greinilegt að menn hafa kunnað að meta það.

Ég nefndi Ragnar Hall fyrr í ræðu minni. Það er hægt að nefna fleiri sem hafa sagt að það skipti máli að við gerbreytum málunum. Staða okkar er betri. Verkstjórn ríkisstjórnarinnar var þannig að hún lá kylliflöt fyrir framan Hollendinga og Breta. Við Íslendingar erum þó komin með vopn í okkar hendur og það er fyrir tilstuðlan þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar. Íslenskra hagsmuna er betur gætt en áður og það er vegna þess að við þingmenn allir lögðum okkur fram um það þrátt fyrir getuleysi, ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessu verkferli öllu. Það er þingið sem hefur staðið sína plikt og sína vakt, ríkisstjórnin hefur ekki gert það.