137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála því að stjórnarandstaðan hafi sýnt málefnalega andstöðu. Þetta mál er líka allt of stórt til að við förum í þessi flokkspólitísku hjólför, eins og sumir hafa kallað þau. Til þess er ábyrgð okkar þingmanna allt of mikil að við getum verið í slíkum tiktúrum. Fyrst vil ég þakka sérstaklega fyrir að hæstv. ráðherra skuli vera í andsvörum því að aðrir þingmenn og ráðherrar, fyrir utan framsögumann og formann fjárlaganefndar frá Samfylkingunni, Guðbjart Hannesson, hafa ekki sýnt sig hér í dag og það er eins og ríkisstjórnin öll, alla vega af hálfu Samfylkingarinnar, hafi einhvern huliðshjálm yfir sér núna, en gott og vel. Við skulum ekki að fást um það.

Mér finnst hæstv. ráðherra gera lítið úr hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni og félögum hans í Vinstri grænum sem voru að móast við, sögðu að þetta gengi ekki lengur, það yrði að fara í þennan samning og reyna að breyta honum. En það er líka alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, þau gátu ekki farið í þann leiðangur að reyna að gæta enn frekar íslenskra hagsmuna nema vegna þess að við sjálfstæðismenn lögðum okkar lóð á vogarskálina til að breyta þessum ömurlega samningi sem í upphafi átti ekki að sýna þingheimi. Ég vil því taka undir það, ef ég hef gleymt því í ræðu minni, og þakka sérstaklega okkar fólki, sjálfstæðismönnum í fjárlaganefnd, fyrir að hafa staðið vaktina, vaktina sem ríkisstjórnin stóð ekki í þessu máli.