137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, sem hér er staddur einn ráðherra, nefndi það í andsvari sínu að ríkisstjórnin hefði ekki haft meiri hluta fyrir þessu máli. Það sem hann sagði hins vegar ekki var að ef ríkisstjórnin hefði talið sig hafa meiri hluta í þessu máli á fyrri stigum þess hefði það verið keyrt í gegn án þeirra breytinga sem náðust fram einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki meiri hluta, þannig að það er mikilvægt að halda því til haga. Ríkisstjórnin gekk með öðrum orðum ekki til þessa verks vegna lýðræðisástar eða vilja til þess að auka og efla samstöðu innan þingsins heldur einfaldlega vegna þess að hún var nauðbeygð til þess að samþykkja kröfur sem komu fram á vettvangi fjárlaganefndar frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar og frá fulltrúum þess sem við getum kallað órólegu deildina í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þetta er mikilvægt að hafa í huga nú þegar stjórnarliðar margir hverjir, eins og ráða mátti af ræðu hæstv. utanríkisráðherra, halda því fram að hér hafi allt verið í sátt og samlyndi og málið afgreitt í fullkomnu samkomulagi.

Auðvitað var það þannig, eins og við vitum öll sem hér erum inni, að ríkisstjórnin var nauðbeygð til þess að fallast á þessa fyrirvara vegna þess að hún hafði ekki meiri hluta fyrir málinu fyrirvaralausu eins og hún lagði það fram. Hún lagði málið þannig fram, fyrirvaralaust. Frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram í byrjun júlí gerði ekki ráð fyrir neinum skilyrðum eða neinum fyrirvörum vegna þeirrar ríkisábyrgðar sem við erum hér að fjalla um, ekki neinum. Eins og ég sagði í andsvari fyrr í dag stendur ekkert eftir af frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra nema fyrirsögnin, ekki neitt, (VigH: Rétt.) ekki nokkur skapaður hlutur. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi haft einhvern sérstakan sáttavilja, hún fór ekki með málið lengra í því formi sem hún vildi vegna þess að hún hafði ekki meiri hluta til þess.

Við minnumst þess á fyrri stigum málsins, allan júlímánuð og langt fram eftir ágústmánuði þegar sífellt var verið að reyna að beita þingið hótunum um það að hitt og þetta héngi á Icesave-samkomulaginu og það yrði að afgreiða Icesave-málið fyrir þessar eða hinar dagsetningar vegna einhverra tiltekinna hagsmuna. Það var stöðugt verið að hóta því. Hótað var stjórnarslitum og ég veit ekki hvað og hvað, þannig gekk þetta fyrir sig.

Þegar ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir því, bæði í meðförum fjárlaganefndar milli 1. og 2. umr. og síðan milli 2. og 3. umr., að hún hefði ekki meiri hluta, hvorki í fjárlaganefnd né í þinginu til þess að klára málið í því formi sem hún ætlaði sér, gekk hún nauðbeygð til samkomulags. Það var auðvitað jákvætt að það gerðist, en það er ástæðulaust að þakka ríkisstjórninni eitthvað sérstaklega fyrir það.

Það eru nokkur atriði sem ég þarf að koma inn á hér í stuttri ræðu. Ég ætla ekki að fara í útfærsluatriði þeirra breytingartillagna sem hér hafa verið lagðar fram eða tæknileg atriði málsins, það hefur verið gert vel af hálfu talsmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd. Þeir hafa farið mjög ítarlega yfir það, m.a. um þær viðamiklu, efnislegu breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu, þessi tíu atriði sem tilgreind eru í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar sýna það ljóslega að málinu hefur verið breytt í grundvallaratriðum. Ég ætla hins vegar að staldra örlítið við þá spurningu sem nokkuð hefur verið til umræðu í dag hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpi fjármálaráðherra séu í samræmi við samningana sem gerðir voru 5. júní.

Það er augljóst að svo er ekki. Það er augljóst samningarnir frá 5. júní gera ráð fyrir skilyrðislausri ríkisábyrgð. Það segir berum orðum í samningunum frá 5. júní að gert er ráð fyrir að ríkissjóður veiti tryggingarsjóði óafturkallanlega og skilyrðislausa ábyrgð, það er alveg skýrt. Samningarnir við Hollendinga og Breta frá 5. júní gera ráð fyrir skilyrðislausri ríkisábyrgð. Það sem Alþingi segir hér er: Ríkisábyrgðin er háð mjög miklum fyrirvörum sem varða efnahagslega þætti, sem varða lagalega óvissu og fleira þess háttar og það í sjálfu sér kallar á að hæstv. ríkisstjórn taki upp viðræður við Hollendinga og Breta að nýju. Þannig er það auðvitað nýtt samningstilboð af hálfu Íslendinga vegna þess að Alþingi leggur í hendur ríkisstjórnarinnar lagasetningu sem beinlínis kallar á að ríkisstjórnin fari til Hollendinga og Breta og breyti þeim samningum sem gerðir voru 5. júní. Það er augljóst og þarf ekki að vísa lengi í samningana sjálfa annars vegar og hins vegar í þær breytingar sem gerðar hafa verið til þess að sjá þetta.

Samningarnir gera ráð fyrir því að Alþingi samþykki að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð í samræmi við ákvæði samningsins, þetta segir í b-lið 3. gr. samningsins. Það segir að samningarnir taki ekki gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð samkvæmt þessum samningi. Hver er sú ábyrgð samkvæmt þessum samningi? Um það er fjallað 6. gr., gr. 6.2. Þar segir:

„Íslenska ríkið: (a) ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust gagnvart lánveitanda að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni standa á tilhlýðilegan hátt og á réttum tíma við allar skuldbindingar sínar samkvæmt þeim fjármálaskjölum sem hann er aðili að ...“

Það er alveg augljóst að með því að setja þessa fyrirvara vegna ríkisábyrgðarinnar er verið að fara inn í samninginn, það er verið að breyta grundvallaratriði í honum og það kallar á viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þarf að setjast að nýju niður með Hollendingum og Bretum og leita í raun og veru nýrra samninga. Það var í mínum huga alveg ljóst eftir þær breytingar sem gerðar voru eftir 2. umr., en með þeim breytingum eða breytingartillögum sem gerðar hafa verið af hálfu fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. er þetta sagt berum orðum. Það er sagt berum orðum að ríkisábyrgðin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafi samþykkt alla þá fyrirvara sem Alþingi setur vegna ríkisábyrgðarinnar.

Þetta gerbreytir auðvitað málinu, það er öllum ljóst. Þetta gerbreytir samningnum og það eru tóm látalæti og fyrirsláttur ef menn halda því fram að svo sé ekki. Við skulum rifja það upp að samningarnir, lánasamningarnir og samningarnir við Hollendinga og Breta taka ekki gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð og að samningurinn gerir ráð fyrir óafturkallanlegri og skilyrðislausri ábyrgð gagnvart lánveitendum, þ.e. Bretum og Hollendingum. Það er alveg ljóst þannig að verði þetta frumvarp samþykkt og afgreitt með þeim hætti sem gera má ráð fyrir eftir niðurstöðu meiri hluta fjárlaganefndar er boltinn hjá ríkisstjórninni. Þess vegna er í rauninni alveg furðulegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, ekki síst þeir ráðherrar sem mesta ábyrgð bera á málinu, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, skuli ekki taka þátt í umræðum hér í dag, að þeir skuli ekki kveðja sér hljóðs og útskýra hvernig þeir ætli að fylgja eftir samþykkt Alþingis ef frumvarpið verður að lögum með þessum breytingum.

Ég kalla eftir því og spyr hæstv. forseta hvort það sé von á hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra til þessarar umræðu. Ég vænti því að hæstv. forseti svari því á eftir. Það er alla vega fáheyrt að í jafnmikilvægu máli skuli þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á framkvæmdinni þegar Alþingi hefur lokið afgreiðslu sinni skuli ekki einu sinni taka þátt í þessari umræðu, skuli ekki láta sjá sig. Hæstv. fjármálaráðherra var hér reyndar fyrr í dag, bara svo því sé haldið til haga, en hefur ekki haldið ræðu við þessa umræðu heldur skotið sér inn í andsvar einu sinni, ef ég man rétt. Og þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra hafi mælt hlý orð í garð sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd og stjórnarandstöðunnar var ekki mikið á andsvari hans að græða efnislega.

Ég tel að það sé í rauninni algerlega ófært að þessari umræðu ljúki án þess að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á málinu, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, láti sjá sig. Það verður veigamikið hlutverk sem þeim verður falið að leiða þetta mál til lykta gagnvart viðsemjendum okkar, gagnvart þessum þjóðum í framhaldi af þessu máli ef frumvarpið verður samþykkt, eins og líkur má leiða að. En það er ófært að þeir taki ekki þátt í þessari umræðu og fjarvera stjórnarliða frá þessari umræðu, þátttökuleysi þeirra í þessari umræðu, vekur auðvitað spurningar um það hvað fyrir þeim vakir. Eru þeir að reyna að þegja sig í gegnum þessa umræðu, vonast þeir til þess að með því að taka ekki þátt í umræðunni verði þetta með einhverjum hætti sársaukaminna fyrir þá? Eru þeir að reyna að koma í veg fyrir að málið fái fjölmiðlaumfjöllun eða hvað gengur þeim til?

Það eru allir sammála um að þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Ég minnist þess að hæstv. ráðherrar, fjármála- og forsætisráðherrar, hafa lýst því yfir að um væri að ræða eitthvert mesta hagsmunamál þjóðarinnar á þessum tímapunkti að koma þessu máli í gegn, en þeir láta ekki sjá sig hér í þessari umræðu. Hæstv. fjármálaráðherra skýtur sér í andsvar einu sinni og sést svo ekki meir. Hvað gengur mönnum til? Ég átta mig ekki á þessu. Eru menn að reyna að þegja sig í gegnum þessa umræðu, eru menn að vonast til þess að þjóðin sé orðin svo þreytt á þessu máli að lokaafgreiðslan fái ekki mikla athygli? Ég veit það ekki. Eru þeir að reyna að breiða yfir að það er gríðarlegur ágreiningur um marga þætti þó að niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar leiði til þess að málið batnar til muna frá því sem áður lá fyrir? Það á eftir að koma í ljós en mér finnst þetta allt hið undarlegasta mál.

Áður en ég lýk máli mínu verð ég að segja að þrátt fyrir að ég standi við það sem ég hef sagt, að þær breytingartillögur sem afgreiddar hafa verið af hálfu fjárlaganefndar gera það að verkum að hagsmunir Íslands eru mun betur tryggðir en ella væri og málið hefur því batnað til muna, breytir það því ekki að eftir standa grundvallarspurningar um hvort Alþingi á að ábyrgjast þessar skuldir, hvort Alþingi á að samþykkja ríkisábyrgð vegna þeirra vondu samninga sem samþykktir voru af hálfu ríkisstjórnarinnar 5. júní.