137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég hafi tekið svo til orða að málið væri í höfn átti ég við að því væri að ljúka á Alþingi. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði látið svo lítið að eyða einhverjum tíma með okkur í þingsal á meðan á umræðum um þetta mikilvæga mál stóð, hefði hann ekki þurft að bera fram þessa spurningu því að hann hefði þá vitað að ég tel að þessir fyrirvarar rúmast engan veginn innan samningsins, enda hef ég bent á að um leið og samningurinn yrði samþykktur fellur hann í breska lögsögu og þar með gætu Bretar litið svo á að fyrirvararnir væru einskis verðir. Þess vegna lít ég svo á að um nýjan samning sé að ræða. Þess vegna skil ég ekki þá þrjósku sem ríkisstjórnin hefur sýnt í þessu máli. Auðvitað á að víkja þessum samningi til hliðar og semja upp á nýtt því að raunverulega eru fyrirvararnir ekkert annað en nýtt samningstilboð, nýr samningur og það er raunverulega þá eingöngu í höndum Breta hvað þeir gera.