137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við stöndum frammi fyrir þeim pólitíska veruleika að búið er að skrifa undir samning sem flestir eru sammála um að sé mjög hættulegur. Í honum eru miklar áhættur, bæði lagalegar og efnahagslegar og mér fannst, eftir að búið var að skrifa undir þennan samning og sérstaklega eftir að kom fram frumvarp um ríkisábyrgð, sem er annar hlutur, við hv. þingmenn yrðum að vinna með öllum ráðum að því að minnka þá áhættu sem fylgir þessum samningi. Það er hinn pólitíski veruleiki.

Ef ekkert hefði verið gert hefði samningurinn væntanlega flotið í gegn með einhverjum veikum breytingum sem hefðu skilið eftir þessa miklu áhættu fyrir íslensku þjóðina og það fannst mér ekki fært. Það voru fleiri þingmenn sem voru hræddir við þessa áhættu, þar á meðal voru nokkrir hugrakkir þingmenn Vinstri grænna. Og þeir ásamt með Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Borgarahreyfingunni mynduðu nýjan meiri hluta á Alþingi, nýjan, viðkvæman og óvenjulegan meiri hluta sem tók ekki tillit til flokkapólitíkur. Það var ekki markmið að fella ríkisstjórnina, eingöngu að finna lausnir sem minnkuðu þessa áhættu og að koma í veg fyrir að hún dyndi yfir íslenska þjóð.

Það tókst en það var mjög erfitt, ég viðurkenni það, vegna þess að við vorum að berjast við fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Aftur og aftur um hvert einasta orð, um hverja setningu var barist. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðildarbeiðni Íslands að Evrópusambandinu. Það er þannig. Þess vegna mátti ekki styggja þá of mikið, það mátti ekki breyta samningnum of mikið. Þannig kom upp þessi sérkennilega staða að meiri hluti Alþingis var að berjast við minni hluta ríkisstjórnarinnar. Sú barátta hafðist. Það tókst að ná inn lagalegum fyrirvörum sem eru mjög mikilvægir, sérstaklega sá sem er í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar um að Bretar og Hollendingar eigi að samþykkja ríkisábyrgðina.

Síðan náðust líka inn efnahagslegir fyrirvarar sem urðu ofan á þannig að ég tel að með þessum breytingum sé ríkisábyrgðin orðin þokkaleg, hún á ekki að koma í bakið á þjóðinni. Samkvæmt þessum fyrirvörum er litið á getu þjóðarinnar en ekki það sem henni er ætlað að greiða. Þess vegna skipta vextir og lélegar innheimtur á eignum Landsbankans minna máli en ella því að ef hagvöxtur væri mjög myndarlegur borguðum við alltaf 6% af hagvextinum og þá munar okkur lítið um það. En ef hagvöxtur er lítill borgum við líka 6% af mjög litlu og þá munar okkur heldur ekki eins mikið um það.

Menn hafa rætt um gjaldfellingu, gjaldfelling fyrir ríkisábyrgðina mundi verða galin af hendi Breta og Hollendinga því að þá er engin ríkisábyrgð, þá verður hún ekki greidd. Og gjaldfelling á tímanum sem ríkisábyrgðin stendur mundi þá skerðast með því hámarki sem er það árið þannig að það er líka galið af hendi bæði Breta og Hollendinga að gjaldfella yfirleitt. Og eftir tímann er ekkert lengur til að gjaldfella þannig að þá verður ekki greitt, ríkisábyrgðin er því takmörkuð.

Það skiptir ekki máli þó að lítið greiðist af eignum Landsbankans vegna þess að við greiðum eins og getan leyfir. Háir vextir og hátt gengi pundsins skipta heldur ekki máli. Síðan hefur komið í ljós að þetta gæti hugsanlega nýst við skuldaskil fátækra þjóða úti í heimi því að það sem gerist með svona fyrirkomulagi er að hagsmunir kröfuhafa og skuldara fara saman. Það eru hagsmunir Breta og Hollendinga með þessu fyrirkomulag að hagvöxtur verði mikill á Íslandi, þá fá þeir almennilega greitt. Ég tel að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu mjög góðar og sá pólitíski meiri hluti sem náðist kom í veg fyrir að hér yrði samþykkt eitthvert frumvarp frá ríkisstjórninni sem hefði getað haft mjög slæmar afleiðingar. Ég mun því styðja breytingartillögurnar sem hér hafa verið lagðar fram heils hugar. Það er mín afstaða.