137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisábyrgðin vegna lána Breta og Hollendinga til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans er stærsta einstaka fjárhagslega skuldbindingin sem íslenska ríkið hefur tekið á sig. Icesave-deilan er eitt erfiðasta mál sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á við á síðari tímum, ekki síst vegna þess að skuldbindingin á rætur sínar í óábyrgri starfsemi einkarekinnar íslenskrar bankastofnunar á erlendri grund.

Í Icesave-málinu eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga. Það hefur lagst þungt á þing og þjóð og reynt á þolrifin í okkur öllum. Eins og vænta mátti hafa kostir samninganna við Breta og Hollendinga lítt verið ræddir og meira verið dvalið við meinta galla þeirra og oft verið málað í sterkum litum. Fjölmörg atriði hafa þó verið skýrð og rædd þannig að enginn ágreiningur er lengur um þau og vissulega veita lánasamningarnir Íslendingum ráðrúm til að ná kröftum sínum á ný áður en til endurgreiðslu kemur.

Það er afar mikilvægt að Icesave-samningarnir hafa verið lagðir fram sem opin bók fyrir þingmenn og almenning í landinu og ég fullyrði að aldrei áður hefur verið slíkt gagnsæi í alþjóðlegum samningum á vegum ríkisins. Icesave-málið hefur verið prófsteinn á opna og lýðræðislega umræðu í landinu og ég tel að við höfum þegar á heildina er litið staðist þá áraun.

Þeir fyrirvarar sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að bætt verði við frumvarp ríkisstjórnarinnar gera það að verkum líkt og ég benti á þegar í upphafi að við þurfum í kjölfarið að ræða við Breta og Hollendinga um framhald málsins. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum. Þetta verður verkefni ríkisstjórnarinnar í kjölfar samþykktar laganna, samanber breytingartillögu við 1. gr. laganna þar sem segir nú, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Ég er allvongóð um að þetta takist. Hvorki ég né aðrir ráðherrar höfum þó fullvissu í því efni enda höfum við ekki talið rétt að standa í formlegum viðræðum á meðan Alþingi hefur verið að fjalla um málið. Samskiptin undanfarið hafa því fyrst og fremst takmarkast við upplýsingamiðlun. Ég dreg þó enga dul á að við munum þurfa á öllum okkar sannfæringarkrafti að halda en þar búum við að hinni gríðarlega ítarlegu yfirferð sem málið hefur fengið í fjárlaganefnd og öðrum þingnefndum. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingmönnum, starfsmönnum þingsins og Stjórnarráðsins og öllum þeim fjölmörgu sem koma að þessu máli fyrir þrotlaust starf á þessu sumri.

Eftir 10 vikna umfjöllun er nú komið að því að Alþingi afgreiði málið fyrir sitt leyti. Allt hefur sinn tíma og það er von mín að þegar upp er staðið eftir þessa löngu sumarsetu snúi alþingismenn bökum saman og tryggi málstað Íslands framgang sem einn maður. Sú breiða pólitíska samstaða sem náðst hefur á Alþingi um málið er okkur ákaflega dýrmæt og hún er það veganesti sem við reiðum okkur á í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Frá mínum bæjardyrum eru fyrirvarar frumvarpsins þríþættir. Í fyrsta lagi eru ákveðnar forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar þar sem orðaðir eru hlutir sem fullyrða má að hafi verið óskrifuð forsenda við samningagerðina og hafa að sumu leyti verið staðfestir af hálfu allra aðila eftir að henni lauk. Þessar forsendur lúta meðal annars að óskoruðu forræði yfir náttúruauðlindum og því að tilteknar nauðsynlegar eignir ríkisins verði út frá fullveldissjónarmiðum undanþegnar aðför. Þá er því einnig slegið föstu að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við Brussel-viðmiðin svokölluðu og að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra.

Í öðru lagi er um hin svokölluðu efnahagslegu viðmið að ræða þar sem sett er tiltekið þak á greiðslur á hverju ári vegna ríkisábyrgðarinnar er tekur mið af hagvexti. Það er lánveitendum í hag að við höfum bolmagn til að rísa undir skuldinni og því ætti þetta að vera vel ásættanlegt. Það ætti ekki að skipta þá sköpum þótt þetta kunni að leiða til þess að greiðslur verði lægri í byrjun en aukist svo þegar líður á seinni hluta lánstímans. Komi til þess að við náum ekki að greiða upp skuldina á 15 árum er lögð áhersla á að viðræður muni fara fram tímanlega milli aðila. Eins og fram kom í máli framsögumanna meiri hluta fjárlaganefndar og 1. minni hluta fjárlaganefndar í gær yrði það svo ákvörðun Alþingis eftir slíkar viðræður hvort ríkisábyrgðin verði framlengd. Með samþykkt þessarar breytingartillögu er Alþingi að lýsa því yfir að ríkisábyrgðin verði á þessu stigi ekki veitt lengur en til 15 ára. Allar líkur eru á að lánið verði að fullu uppgreitt á þeim tíma. Ef svo ólíklega fer að það takist ekki verður það verkefni Alþingis þegar þar að kemur að taka sérstaka ákvörðun um framlengingu ríkisábyrgðar vegna þess sem út af stendur. Á þeim tímapunkti mun liggja ljósar fyrir en nú hvort forsendur samninganna hafi haldið og ýmiss konar óvissu um lagalegar skuldbindingar Íslands verði eytt.

Í þriðja lagi er um hin svokölluðu lagalegu viðmið að ræða. Annars vegar er þar fjallað um hvort Ísland hafi yfir höfuð verið lagalega skylt að veita ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins og afleiðingar þess ef annað kemur í ljós. Aðrar Evrópuþjóðir féllust ekki á að það væri neinn lagalegur vafi á ferð en mætir lögfræðingar íslenskir hafa verið á öðru máli. Hins vegar lýtur fyrirvarinn að því eftir hvaða reglum verður úthlutað úr búi Landsbanka Íslands. Viðsemjendur okkar lögðu þunga áherslu á að gætt yrði jafnræðis milli tryggingarsjóðsins og sjóða Bretlands og Hollands. Okkar sérfræðingar á þeim tíma töldu þetta vera í góðu samræmi við íslenskan rétt. Síðar var það dregið í efa og því taldi fjárlaganefnd rétt að setja fyrirvara um þetta efni enda kunna að vera miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt og ítrekað að þessir fyrirvarar eru í stórum dráttum þess eðlis að hvert þjóðþing mundi telja sér fært að setja sambærileg öryggisákvæði til að leggja áherslu á að ekki megi skerða fullveldi þjóðar sinnar og tiltekna grundvallarhagsmuni eins og framtíðarefnahag þjóðarinnar. Þess vegna leyfi ég mér að vera vongóð um að Bretar og Hollendingar sýni málinu í þeim búningi sem það fer nú fulla sanngirni og skilning. Það er það sem við förum fram á við þessar þjóðir nú í kjölfar samþykktar þessara laga.

Það er alþekkt úr sögu evrópskrar samvinnu að þjóðþing eða dómstólar setji fyrirvara þegar verið er að afgreiða mikilvæga milliríkjasamninga. Eins og áður segir er verkefnið nú að sannfæra viðsemjendur okkar um að við séum ekki að hlaupast undan ábyrgð heldur þvert á móti að axla ábyrgð en með þeim hætti að við fáum örugglega undir henni risið.

Virðulegi forseti. Að endingu þetta. Fáum blandast lengur hugur um að lausn Icesave-málsins er forsenda fyrir því að Íslendingar komist áfram með áætlanir um endurreisn efnahagslífsins eftir banka- og gjaldeyrishrun. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er að velja þá leið sem við teljum farsælasta fyrir íslenska þjóð jafnvel þótt allir kostir sem úr er að velja séu slæmir og þungbærir. Niðurstaða Alþingis er í sínum kjarna eins og að var stefnt af hálfu ríkisstjórnarinnar, Ísland mun standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og Alþingi mun ábyrgjast Icesave-lánin að uppfylltum ákveðnum skilmálum.

„Að bera eitthvað þungt — það er að vera“, sagði skáldið. Við skulum snúa okkur að því að hleypa krafti í íslenskt efnahagslíf þannig að engar byrðar verði svo þungar að þær sligi okkur á næstu 15 árum.