137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta mál sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um hefur verið þjóðinni erfitt. Þetta mál hefur verið Alþingi erfitt, ekki bara vegna þess hve risavaxið það er heldur vegna þess að það hefur sundrað okkur sem erum í þessum sal. Ég hef verið einn talsmanna þess að við tækjum á málinu ekki sem stjórn og stjórnarandstaða heldur sem alþingismenn, sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Það hefur tekist, það hefur myndast breið samstaða í þessum sal.

Ég sannfærðist um það innra með mér að þetta mál mundi aldrei falla vegna þess að í stjórnarandstöðu er að finna marga þingmenn sem (Forseti hringir.) ætluðu ekki að láta það falla. Þá var hafist handa um að smíða fyrirvara sem mundu gagnast íslenskum hag, almannahag. Það tókst líka. Hitt tókst einnig, að opna augu okkar allra, (Forseti hringir.) Alþingis og ríkisstjórnar, að við eigum að viðhafa gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð og að valdboð og ógagnsæi eiga að heyra sögunni til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)