137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við 2. umr., og jafnframt þá 1., kom fram mikill efi um að þeir fyrirvarar stæðust sem við værum að setja, og meira að segja í mínu hjarta greip um sig efi. Þá kom fram mjög snjöll tillaga frá Indefence-hópnum sem ég vil við þetta tækifæri þakka fyrir mjög óeigingjarnt og mjög gott starf í þágu þjóðarinnar. Það er sú tillaga sem við erum að greiða atkvæði um og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þetta síðasta er mjög veigamikið. Ef þau ekki fallast á þessi skilyrði er engin ríkisábyrgð. Þetta finnst mér mjög snjallt og ég segi hjartanlega já við þessu.