137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er aðall sérhverrar lagasetningar að hún gerir ráð fyrir öllum möguleikum og spurningin er sú: Hvað á að gera við afganginn? Ef hagvöxtur verður minni en spáð var eða endurgreiðslur úr eignum Landsbankans verða minni eða gengi pundsins hækkar óeðlilega verður að gera einhverjar ráðstafanir. Þá verður forsendubrestur, brestur á þeim forsendum sem Bretar og Hollendingar hafa samþykkt því að annars gildir ekki ríkisábyrgðin. Þá setjast menn niður og benda væntanlega á Brussel-viðmiðin og á það að þeir hafi fallist á þessar forsendur. Þá er alveg í lófa lagið hvort Íslendingar greiði yfirleitt nokkuð meira. Ég geri ráð fyrir því að þá muni menn benda á bæði Brussel-viðmiðin og það að Bretar og Hollendingar hafi fallist á þessar forsendur og líka á fordæmalausa stöðu Íslands. Ég reikna með því að þá muni menn ekki greiða neitt, þetta falli bara niður. En það þarf að gera eitthvað við það og þess vegna finnst mér þetta nauðsynleg viðbót. Ég segi já.